Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 31. 2013 | 17:25

PGA: Vijay Singh dregur sig úr Waste Management Phoenix Open vegna bakmeiðsla

Mitt í öllum skandalnum um notkun Vijay Singh á ólöglegum efnum hefir hann dregið sig úr Waste Management Phoenix Open mótinu, sem er mót vikunnar á PGA og hefst í kvöld.

Talsmaður IMG, sem er umboðsaðili Singh sagði að Vijay hefði dregið sig úr mótinu vegna eymsla í baki.

Í Morning Drive í morgun (golfsjónvarpsþætti Golf Channel) sagði Tom Pernice Jr., vinur Vijay að hann hefði meitt sig í baki á æfingasvæði TPC Scottsdale og hefði verið í meðferð síðan þá.

Vijay,  sem verður 50 ára í febrúar, viðurkenndi í viðtali við Sports Illustrated að nota hjartarhornssprey (ens. deer-antler spray) sem inniheldur ólöglegt vöðavaxta hvetjandi efni IGF-1, sem er bannað á PGA Tour.

Singh átti að hefja leik kl. 14:25 (19:25 að íslenskum tíma) í holli með  Carl Pettersson og Ryan Moore. Richard H. Lee tekur sæti Vijay í mótinu.

Í gær lét Vijay frá sér fara fréttatilkynningu þar sem hann tók afstöðu til notkunar sinnar á hjartahorns-spreyinu, en þar sagði hann m.a.: „Meðan að ég notaði hjartarhorns-spreyið var ég ekki á neinum tíma þess meðvitaður að það innhéldi efni sem væri bannað skv. vímuefnastefnu PGA Tour. Reyndar þegar ég fékk vöruna fyrst, leit ég á lista yfir innihaldsefni og sá engin sem voru á bannlista. Ég er algerlega sjokkeraður að hjartarhorns- spreyið innihaldi bönnuð efni og ég er reiður sjálfum mér að hafa komið mér í þessa stöðu.“

„Ég hef verið í sambandi við PGA Tour og er að fullu samstarfsfús varðandi rannsókn þeirra á málinu. Ég ætla ekki að tjá mig meira að svo stöddu.“