Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 5. 2012 | 14:45

PGA: Tiger Woods ánægður með skorið sitt upp á 62 högg á Honda Classic

Tiger Woods spilaði besta golfhring sinn í yfir 2 ár í gær og sagði að það væri bara tímaspursmál hvenær hann ynni aftur á PGA Tour.

Tiger var á samtals -8 undir pari, 62 höggum á lokahring Honda Classic og varð aðeins 2 höggum á eftir sigurvegaranum Rory McIlroy.

Þetta er besta skor Tiger á lokahring og jafnvel þó það dyggði ekki til þess að hindra yfirtöku Rory McIlroy á toppsæti heimslistans þá er 14-faldur risamótstitilhafinn, Tiger, hamingjusamur.

„Ég hef verið svo nálægt því að ná þessu skori eða skori þar í kring. Þetta var bara tímaspursmál þar til þetta kæmi allt saman,“ sagði Tiger við blaðamenn.

Tiger Woods

Þetta var lægsta skor Tiger frá því að hann var á 62 höggum á BMW Championship árið 2009, sem er síðasti opinberi sigur fyrrum nr. 1 á heimslistanum (Tiger Woods).

Áhorfendur, sem hafa hvatt hann áfram alla vikuna létu hvað hæst í sér heyra þegar Tiger fékk frábæran örn á par-5 18. brautinni, þar sem hann sló æðislegt 2. högg inn á flöt og setti síðan örugglega niður 2 metra pútt fyrir erni.

Loksins talar Tiger um vandamál sín í þátíð.

„Ég hugsa að ég hafi bara þurft smá tíma. Ég hef skipt um þjálfara og verið meiddur mestan part s.l. árs og síðan fór ég að tína brotin saman.“

„Allt í allt hefir skorið mitt verið gott frá því í Ástralíu. Og þá var bara að halda áfram og byggja ofan á og halda ferlinu áfram.

„Við hvert mót hef ég tekið framförum og bætt mig. Og þetta er aðeins tímaspursmál þar til allt smellur á heilu móti,“ sagði Tiger.

Woods fór í mótið með áhyggjur af púttum sínum, en eftir að hafa púttað 34 sinnum á 1. hring þá fékk hann ekki 1 pútti meir en 28 það sem eftir var vikunnar.

Og á sunnudaginn (í gær) voru púttin bara 26.

Woods spilar á Doral í næstu viku á WGC-Cadillac Championship, en það kemur ekki á óvart að hann sé þegar farinn að líta til Masters í apríl og möguleikann á 5. sigri sínum á Augusta National.

„Ég er yfir mig ánægður með þá staðreynd að í hverri og einni einustu viku hefir leikur minn batnað. Með hverju móti hefir hann orðið betri og það er einmitt markmiðið þegar nálgast apríl.“

Heimild: NY Times