Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 29. 2013 | 10:00

PGA: Tiger saxar á forskot Rory á heimslistanum

Tiger Woods vill sigra á risamótum, en hann vill líka verða nr. 1 á heimslistanum aftur.

„Auðvitað er það honum mikilvægt,“ sagði Joe LaCava, kylfusveinn Woods. „Hver vill ekki vera forystuhundurinn? Ef þú vilt vera nr. 6 ertu líklega í vitlausum bissness.“

Með sigri sínum í gær á Farmers Insurance Open hefir Tiger styrkt stöðu sína í 2. sæti heimslistans en einnig saxað á forskot heimsins besta, Rory McIlroy.

Í Abu Dhabi í síðustu viku var Rory með  12.36 stig á heimslistanum,  4.20 stigum meira en Tiger.  Tiger hefir nú minnkað muninn milli þeirra um meira en heilt stig með sigrinum, þ.e. nú munar aðeins 3,14 stigum á þeim.

Tiger hefir verið nr. 1 lengur en nokkur atvinnukylfingur, eða 623 vikur. Hann missti 1. sætið í hendur Lee Westwood í október 2010. Tveir til þrír sigrar í viðbót gætu komið Tiger í gamla 1. sætið sitt, þ.e. ef Rory fer ekki að venjast Nike kylfunum og svara fyrir sig.

Tiger sagði að sigrarnir væru það sem kæmu kylfingum í 1. sæti heimslistans. „Það gerist bara með því að sigra golfmót. Það er þannig sem ég komst þangað til að byrja með. Það er þannig sem hann (Rory) komst þangað. Þetta snýst um að sigra, vera stöðugur…. til þess að komast aftur þangað (þ.e. í 1. sætið) þá er það (að sigra), sem ég verð að gera.“

Heimild: Golf Channel