Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 26. 2013 | 07:45

PGA: Tiger nr. 1 á ný

Tiger trónir enn á ný á toppi heimslistans eftir 2 1/2 árs fjarveru.

Varðandi endurtöku sína á 1. sætinu sagði Tiger m.a.í viðtali eftir sigurinn:„Þetta var aukaafurð mikillar vinnu, þolinmæði og þess að koma sér aftur til þess að spila í mótum. Ég hef sigrað í nokkrum golfmótum […] og því færst upp (á heimslistanum).“

Tiger er loksins kominn ínnan þægindaramma síns, þangað sem honum finnst hann eiga að vera – með nýja og glæsilega kærestu upp á arminn, þar sem er skíðadrottningin Lindsey Vonn. Merkilegt hvernig ástin getur umbylt golfleik … jafnvel besta kylfings í heimi!

Tiger veltir sam-Nike-auglýsanda sínum, Rory McIlroy úr 1. sætinu í dag, eftir að hafa unnið 2 högga sigur á Arnold Palmer Invitational í gær, en mótið tafðist vegna mikils storms sem gekk yfir Bay Hill völlinn í Flórída, mótsdagana.

Þetta var met og sögulegur sigur í gær – engum hefir tekist að sigra á Arnold Palmer Invitational 8 sinnum!

Auk þess saxar Tiger sífellt á 82 móta met Sam Snead á PGA Tour, en sigurinn í gær var 77. sigur hans og nú vantar Tiger „bara“ 6 sigra í viðbót til að slá met Snead, um flesta sigra á PGA Tour. Jafnframt var sigurinn í gær 104. sigur Tigers á ferli hans.

Aðspurður hvort hann yrði nú ekki að bæta við 15. risatitlinum til þess að sannfæra efasemdarmenn sína um að hann sé aftur kominn í fyrra form sagði Tiger: „Það er undir þeim komið hverju þeir trúa. Þetta er skoðun þeirra. Ég er mjög ánægður með hvernig ég er að spila.“