Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 9. 2015 | 05:30

PGA: Spieth segist ekki vera á sama stigi og Rory – náði ekki niðurskurði á Players

Jordan Spieth og Rory McIlroy fengu nasarsjón af leik hvors annars þar sem þeir spiluðu saman fyrstu tvo hringina á The Players Championship, sem oft er nefnt 5. risamótið.

Báðir komu inn í mótið eftir sigra undanfarið.  Spieth heillaði alla með því að sigra nokkuð örugglega á The Masters risamótinu og Rory er nýbakaður heimsmeistari í holukeppni.

Aldursmunur er á Jordan og Rory; Jordan er aðeins 21 árs meðan að Rory er 5 árum eldri, þ.e. 26 ára.

Jordan var mjög óánægður með leik sinn á fyrstu 2 hringjunum.

Ég hef bara ekki unnið nógu mikið í leik mínum frá því á Masters,“ sagði Jordan í samtali við Golf Channel. „Ég var að spreyja boltann allstaðar í þessari viku og það er ólíkt mér.“

Jordan bar mjög ákveðið tilbaka að það væri einhver samkeppni í gangi milli sín og Rory.

Ég hef aldrei litið á þetta sem samkeppni,“ sagði Jordan Spieth. „Hann er góður leikmaður og ég verð bara að komast á þetta stig. Ég held ekki að ég sé kominn á hans stig.  Á þessu stigi í ferli sínum er Rory á öðru stigi en allir kylfingar sem eru yngri en hann, þ.á.m. ég,“ sagði Jordan hreinskilningslega og augljóslega vonsvikinn yfir að hafa ekki náð niðurskurði á The Players.

Þetta hefir verið ansi erfiður mánuður fyrir Jordan Spieth sem spilaði m.a. í Harbour Town strax vikuna eftir Masters og var inn á milli í fjölda viðtala og skemmti- og fréttaþáttum.

Hann bar samt tilbaka að hann væri þreyttur. „Ég er ekki þreyttur,“ sagði Jordan í gær. „Þetta var bara slæmur dagur. Það er eitthvað að sveiflunni minni, sem mér líður ekki vel með. Það sýndi sig í sveiflunni minni í dag. Ég barðist og var að bjarga mörgu fyrir horn í dag (þ.e. gær föstudag).“

Jordan Spieth lék samtals á 3 yfir pari, 147 höggum (75 72) og var 3 höggum frá því að komast gegnum niðurskurð.

Næstu mót hans eru the Crowne Plaza Invitational at Colonial og the AT&T Byron Nelson, en bæði mótin fara fram í heimaríki hans Texas.

Ég hef spilað (þessa velli) milljón sinnum, báða tvo,“ sagði Spieth. „Þetta eru heimavellir; ég veit hvernig á að spila þá. Ég er spenntur fyrir næstu mótum.“

Það má læra margt af Jordan Spieth – hann lætur ekki vonbrigði The Players fá of mikið á sig en lítur bara með tilhlökkun til næstu móta – Það verður svo sannarlega gaman að fylgjast með honum þar …. og næstu árin á The Players, þar sem hann mun eflaust skína í framtíðinni!