Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 6. 2014 | 02:00

PGA: Spieth enn efstur í hálfleik – Tiger á 70

Þegar Hero World Challenge mótið er hálfnað er Jordan Spieth enn efstur á samtals 11 undir pari og hefir hann 2 högga forystu á Henrik Stenson sem er í 2. sæti á samtals 9 undir pari.

Hins vegar á Spieth enn eftir að spila lokaholuna, þá sem lék Tiger Woods grátt en hann fékk skramba á hana – þannig að staðan gæti enn breyst.

Leik var frestað vegna myrkurs og lýkur Spieth því ekki við að spila holuna fyrr en seinna í dag.

Tiger lék betur föstudaginn en daginn þar áður, 7 högga sveifla milli hringja hjá honum og kannski að karlinn sé að hrökkva í gang!

Tiger lék sem sagt á 2 undir pari, 70 höggum – hrein unun að horfa á hann og hann var aftur farinn að sýna gamalkunna Tigertakta á köflum, fékk m.a. glæsiörn á par-5 13. brautina og allt annað að sjá stutta spilið hjá honum í dag en í gær.

Tiger vermir samt enn botnssætið af 18 keppendum, en nú munar aðeins 2 höggum á honum og þeim sem er í næstneðsta sæti, Billy Horschel,  en ekki 5 höggum eins og í gær, þannig að kannski þetta sé allt að koma.

Til þess að sjá stöðuna í hálfleik á Hero World Challenge SMELLIÐ HÉR: