Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 13. 2013 | 09:15

PGA: Sergio sættir sig við örlögin á 17.

Sergio Garcia yppti öxlum og sætti sig við örlögin eftir að horfa á eftir sigurmöguleikum sínum hverfa út í vindinn á næstsíðustu holu mótsins á The Players Championship í gær.

Garcia var svo sannarlega meðal þeirra sem áttu möguleika á sigri þegar hann mætti á 71. teig á TPC Sawgrass og var jafn þeim sem síðar vann mótið, Tiger Woods.

En eftir að hafa slegið í vatnið tvisvar á þessari 137 yarda (125 metra) löngu holu, varð hann að skrifa 7u á skorkortið á 17. holu, áður en hann bætti við 6u á 18. holu og lauk þannig keppni á 76 höggum, T-8, 6 höggum á eftir nr. 1 á heimslistanum (Tiger Woods).

Garcia sagði: „Þegar boltinn var í loftinu hugsaði ég, „gerðu það vertu nú í lagi, vegna þess að hann var beint á pinna. Hann var örugglega 3 fet (1 metra) til vinstri við holuna. Þegar hann lenti með „splashi“ í vatninu, hugsaði maður bara, vonandi slæ ég gott högg eftir þetta og næ 4 og ég á enn möguleika á næstu. Þannig að ég hugsaði bara ég ætla að slá sama högg aðeins fastar, sem ég gerði, en svolítill vindur náði tökum á boltanum og hann lenti aftur í vatninu. Næsta bolta sló ég svolítið fastar og hann lenti loks á flöt.  Þetta pirrar mig ekkert. Þetta kemur fyrir.“

Aðspurður um álit sitt á 17. holu TPC Sawgrass sagði Garcia: „Ég hef verið heppinn á þeirri holu. Ég vann The Players Championship titilinn minn á þeirri holu.“

„Þessi hola hefir að mestu leyti verið mér góð.  Í dag (gær) var hún það ekki. Það er bara eins og það er. Þetta er þannig hola. Manni þykir vænt um hana fyrir það sem hún er.“

Heimild: Sky Sports