Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 23. 2012 | 07:00

PGA: Luke Donald laut í lægra haldi fyrir Ernie Els – nr. 1 á heimslistanum á leið heim eftir 1. hring á heimsmótinu í holukeppni

Númer 1 á heimslistanum, Luke Donald, er á leiðinni heim eftir að hafa aðeins spilað 1 hring á heimsmótinu í holukeppni.

„Svona er golfið stundum“ sagði Luke Donald eftir að hafa tapað 5&4 fyrir Ernie Els á 1. degi heimsmótsins. „Þetta er hvikull leikur og stundum bítur hann.“

Luke Donald hafði svo mikla yfirburði á síðasta ári þegar hann sigraði á heimsmótinu í holukeppni að hann lauk öllum leikjum sínum áður en komið var á 18. flöt.  Hann mun heldur ekki spila lokaholuna á Dove Mountain á þessu ári.

Ernie Els, rétt skreið inn á heimsmótið í holukepppni, þ.e. rétt náði að vera meðal 64 efstu á heimslistanum sem hljóta þátttökurétt í mótinu þegar Phil Mickelson ákvað að fara með fjöskylduna í skíðafrí. Ernie náði forystunni í viðureigninni við Luke á 8. holu og lét hana ekki af hendi eftir það.

Þetta er í fyrsta sinn sem Luke Donald tapar á 1. hring í heimsmótinu í holukeppni af öllum 8 skiptunum, sem hann hefir tekið þátt í mótinu.

„Ég held ekki að það myndi hafa skipt máli við hvern ég spilaði í dag. Ég var ekki að spila vel,“ sagði Luke. „Ég strögglaði. Ég gaf frá mér allt of margar holur og gerði of mörg mistök. Það er ekki hægt í holukeppni og alls ekki gegn Ernie.“

Heimild: PGA Tour