Matt Kuchar
Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 21. 2014 | 04:00

PGA: Kuchar sigraði á RBC Heritage – Hápunktar 4. dags

Það var Matt Kuchar, sem stóð uppi sem sigurvegari á RBC Heritage mótinu, sem fram fór að venju á Harbour Town Golf Links, á Hilton Head í Suður-Karólínu.

Kuchar lék á samtals 11 undir pari, 273 höggum (66 73 79 64).

Það var einkum glæsihringur hans upp á 64 högg sem færði honum sigurinn, en á hringnum fékk Kuch 8 fugla og 1 skolla.  Svolítill skjálfti hlýtur þó að hafa komið í Kuchar þegar hann þrípúttaði með ótrúlegum hætti á 17. flöt og þurfti bráðnauðsynlega á fugli að halda á 18. braut til þess að sigra í mótinu.  Útlitið var býsna svart hjá Kuchar þegar hann setti bolta sinn í flatarglompu á 18. en með töfrahöggi upp úr glompu, sem fór beint ofan í holu innsiglaði hann sigurinn á RBC Heritage (s.s. sjá má í myndskeiðinu hér að neðan).

Forystumaðurinn fyrir lokahringinn, Luke Donald, varð í 2. sæti aðeins 1 höggi á eftir Kuchar, en Donald lék á samtals 10 undir pari, 274 höggum (79 68 66 69).

Þriðja sætinu deildu síðan Ben Martin og John Huh en öðru höggi á eftir; á samtals 9 undir pari, hvor og í 5. sæti urðu síðan bandarísku kylfingarnir Brian Stuard og Scott Brown á 7 undir pari, hvor.

Til þess að sjá lokastöðuna á RBC Heritage mótinu SMELLIÐ HÉR: 

Til þess að sjá hápunkta lokahringsins á RBC Heritage mótsins SMELLIÐ HÉR: