Jordan Spieth
Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 18. 2013 | 09:30

PGA: Jordan Spieth fær keppnisrétt á PGA

Hin 19 ára Jordan Spieth, frá Texas vann sér inn keppnisrétt út árið á bestu mótaröð heims, bandaríska PGA, eftir að hafa landað 7. sætinu á móti helgarinnar á PGA, Tampa Bay Championship.

Þar með er hann sem stendur yngsti kylfingurinn á túrnum eða allt þar til Si Woo Kim frá Suður-Kóreu verður 18 ára í sumar og fær formlega keppnisréttinn sem hann vann sér inn í gegnum Q-school á síðast ári.

Þetta þýðir að Spieth er ekki lengur bundinn við að spila aðeins á 7 mótum, sem hann fékk að spila á, á undanþágu.

Keppnisrétturinn er veittur Spieth eftir góða frammistöðu í nokkrum undanförnum mótum (ekki bara Tampa Bay) en t.a.m. varð þessi ungi piltur frá Texas í 2. sæti á Puerto Rico Open í síðustu viku og eftir það þurfti hann aðeins til þess að vinna sér inn $ 101.295 til þess að verða jafn þeim 150. á peningalista PGA og tryggja sér veru sína.  Hann gerði það á þægilegan máta og fór u.þ.b. $ 47.000 yfir það mark.

„Ég er gríðarlega ánægður“  sagði Spieth í viðtali á vefsíðu PGA Tour. „Það er frábært að hafa dagskrá og vita hvar ég leik nokkrum vikum áður en mót fara fram!“

Þess mætti geta að Jordan Spieth er ekki óvanur undanþágum en aðeins 16 ára var hann yngstur til þess að spila í HP Byron Nelson meistaramótinu á TPC Four Seasons Resort og Club Las Collinas í Irving, Texas, dagana 19.-23. maí 2010, en mótið var hluti af PGA Tour.

Hér er vert að rifja upp orð George Conant formanns undirbúningsnefndar mótsins: „Við erum himinlifandi að Jordan muni hefja keppni í PGA-mótaröðinni á móti hér í heimabæ sínum. Við reynum að veita ungum kylfingum, sem við teljum efni í framtíðarstjörnur, tækifæri og það er enginn vafi að Jordan Spieth fellur í það mót.

Undanþágur fyrir unga áhugamenn, til að spila á PGA-mótaröðinni hafa auk Spieth, einungis verið veittar þrívegis. Eftirfarandi kylfingar hlutu þessar undanþágur: Trip Kuehne (1995); Justin Leonard (1993) og Tiger Woods (1993).