Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 7. 2012 | 08:15

PGA: Jonathan Byrd leiðir eftir 1. dag á Hyundai TOC á Hawaii – Myndskeið: samantekt 1. dags og högg dagsins hjá Keegan Bradley

Fyrsta mót keppnistímabilsins 2012 á PGA Tour, Hyundai Tournament of Champions (ens. skammst: TOC)  hófst í gær í Kapalua, Hawaii. Á mótinu keppa aðeins 28 sigurvegarar á PGA túrnum frá því í fyrra, reyndar aðeins 27 eftir að Lucas Glover slasaðist, þ.e. tognaði á hné eftir fall af brettaborði, en hann dró sig úr mótinu.

Eftir 1. dag er það Bandaríkjamaðurinn, Jonathan Byrd, sem vermir 1. sætið, en hann á titil að verja frá því í fyrra. Hann spilaði á -6 undir pari, 67 höggum, en Plantation golfvöllurinn, sem spilað er á, í Kapalua er par-73. Jonathan fékk 8 fugla á hringnum og 2 skolla á 9. og 11. brautunum, en sú fyrri er par-5 og seinni par-3.

Í 2. sæti eru 4 kappar, sem allir komu inn á 68 höggum í nótt, en það eru þeir: Steve Stricker, (sem er að ná sér eftir stirðleikameiðsl í háls og þ.a.l. kraft- og þróttleysi í handleggi s.s. Golf1 greindi frá í gær og ætlar í 4 vikna frí eftir mótin á Hawaii), Webb Simpson og Michael Bradley allir frá Bandaríkjunum  og Martin Laird frá Skotlandi.

Í 6. sæti á 69 höggum er síðan Keegan Bradley, nýliði ársins og PGA risamótstitilhafi 2011. Þessir 6 ofangreindu  voru þeir einu sem spiluðu undir 70 í gær.

Til þess að sjá stöðuna á Hyundai TOC í heild eftir 1. dag, smellið HÉR: 

Til þess að sjá högg gærdagsins, sem Keegan Bradley átti, smellið HÉR: 

Til þess að sjá samantekt af hápunktum 1. dags á Kapalua, smellið HÉR: