Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 18. 2012 | 04:30

PGA: Jimmy Walker leiðir í Greensboro – hápunktar og högg 2. dags

Bandaríkjamaðurinn Jimmy Walker leiðir eftir 2. dag á Wyndham Championship í Sedgefield Country Club í Greensboro, Norður-Karólínu. Hann var á næstlægsta skori dagsins 62 höggum (á eftir Tim Herron; sem var á 61 höggi 2. daginn en er samt ekki nema í 47. sæti (sem hann deilir með 6 öðrum) vegna slælegs 1. hrings upp á 76 högg). Walker spilaði hreint út sagt draumagolf; fékk 8 fugla og 10 pör m.ö.o. var með „hreint“ skorkort. Samtals er Walker búinn að spila á 12 undir pari, 128 höggum  (66 62). Glæsilegt hjá þessum 33 ára kylfingi, sem á sama afmælisdag og Ásta Birna „okkar“ Magnúsdóttir!!!

Í 2. sæti er kylfingur sem var ekki síður að gera góða hluti, kom inn á frábæru skori 7 undir pari, 63 höggum; fékk 7 fugla og 11 pör og skilaði líka „hreinu“ skorkorti með ekki einum einasta skolla á – heimamaðurinn og sigurvegari Opna bandaríska í ár – Webb Simpson, sem á titil að verja í mótinu.  Við þetta glæsiskor skaust Simpson upp um 4 sæti á skortöflunni var í 6. sæti en er nú einn í 2. sæti. Simpson er samtals búinn að spila á 11 undir pari, 129 höggum (66 63).

Fjórir kylfingar deila 3. sætinu á 10 undir pari hver: forystumaður gærdagsins Carl Pettersson (62 68); Sergio Garcia (67 63); Harris English (66 64) og Tim Clark frá Suður-Afríku (63 67).

Mjótt er á mununum milli efstu manna og stefnir í hörkubaráttu nú um helgina.

Til þess að sjá stöðuna að öðru leyti eftir 2. dag á Wyndham Championship SMELLIÐ HÉR: 

Til þess að sjá hápunkta 2. dags á Wyndham Championship SMELLIÐ HÉR: 

Til þess að sjá högg 2. dags á Wyndham Championship, sem Carl Pettersson átti SMELLIÐ HÉR: