Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 9. 2014 | 03:00

PGA: Hvað gerðist eiginlega hjá Adam Scott á 1. hring the Players?

Fyrir Players mótið voru margir að spá í að 4 kylfingar gætu hrundið Tiger úr efsta sæti heimslistans.

Sá sem átti mestu möguleikana á því er nr. 2 á heimslistanum, Adam Scott, en hann þarf aðeins að verða meðal efstu 16 til þess að honum takist það.

En það er ekki margt sem bendir til að svo verði eftir 1. hring the Players, þar sem Scott lék á 5 yfir pari, 77 höggum og er í einu neðsta sætinu T-133 af 144 keppendum og verður  hreinlega að eiga hring ævi sinnar, bara til þess að komast í gegnum niðurskurð.

Scott hefði getað verið í fríi á Bahamas – horft á the Players úr sófanum og orðið nr. 1 á heimslistanum. Hann kannski sér eftir því núna!?

Hvað gerðist eiginlega?

Það voru einkum skrambarnir tveir sem Scott fékk á síðustu tvær holur TPC Sawgrass, sem gerðu út um hringinn hjá honum. Reyndar var hann að leika par-3 holurnar á TPC Sawgrass illa – hann fór ekki bara í vatnið á 17. holu heldur fékk hann líka skramba á par-3 8. holuna.  Svo fékk Scott líka 2 skolla (á 13. og 14. holu) en tók ósköpin aðeins aftur með 3 fuglum. En staðreyndin 5 yfir pari og það er bara of mikið þegar keppt er meðal þeirra bestu!

En gefum Scott orðið:

„Þetta voru alls ekki lokin sem ég þarfnaðist,“ sagði Scott um skrambana á 17. og 18. „Ég sló tvo bolta í vatnið í lokin og það er synd hér, en það gerist , þannig að ég verð bara að fara út á morgun og eiga góðan hring.

„Það var í lagi með spilið mitt. Ég var samt ekki að pútta vel og bætti gráu ofan í svart með nokkrum slæmum höggum á síðustu holunum. Á velli sem þessum, er maður fljótur að missa allt frá sér.“