Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 17. 2013 | 21:30

PGA: Guan náði ekki niðurskurði

Guan Tianlang náði ekki niðurskurði á HP Byron Nelson Championship eftir að hafa átt hring upp á 7 yfir par, 77 högg í dag.

Þessi 14 ára kínverski strákur sem sló í gegn á Masters og síðan í New Orleans var með 2 skramba, 5 skolla 9 pör og 2 fugla á skorkortinu, eftir hvassan hring á golfvelli TPC Four Seasons.

Í gær var Guan á  70 höggum og var meðal  97  kylfinga, sem voru á pari eða betra á 1. hring.

Þegar hann kláraði 2. hring var hann heilum 17 höggum á eftir forystumanni gærdagsins, Keegan Bradley og aðeins 3 kylfingar sem höfðu lokið hringjum sínum voru á hærra skori.

Þetta var einfaldlega ekki dagur Guan! Eftir að hann fékk skramba, 6 högg á 12. holu, þ.e. 3. holu Guan í dag fékk hann fugl á næstu holu en síðan 5 skolla í röð. 🙁