Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 13. 2013 | 08:00

PGA: Garcia hnýtir í Tiger

Eins og allir sáu sem fylgdust með the Players í gær voru Tiger Woods og Sergio Garcia ekki í sama og síðasta ráshópnum, s.s. algengast er um þá sem deila 1. sætinu fyrir lokahringinn.

Tiger var í ráshóp með Casey Wittenberg og Garcia með sænska nýliðanum David Lingmerth, sem líka var í 1. sæti fyrir lokahringinn og voru þeir tveir því í síðasta ráshópnum.

Garcia sagði að það fyrirkomulag hefði hentað bæði honum og Tiger.

„Ég ætla ekkert að vera að ljúga,“ sagði Garcia eftir að hann lauk við 3. hring í gær og ljóst var að Tiger, Lingmerth og hann væru í 1. sætinu. „Hann er ekkert uppáhaldsleikmaðurinn minn að spila með. Hann er ekki vingjarnlegasti náunginn á Túrnum.“

Síðar sagði Garcia við Golf Channel: „Þetta er ágætt fyrir okkur báða.  Við njótum ekki félagsskapar hvors annars. Maður þarf ekki að vera eldflaugaverkfræðingur til þess að sjá það út.“

Tiger vann mótið eftir að Sergio Garcia fékk tvöfaldan skolla þ.e. 7 högg á par-3 17. holunni frægu, þar sem hann sló tvo bolta í vatnið.

Illindin milli Tiger og Garcia eiga sér djúpar rætur.

„Þetta skiptir engu máli,“ sagði Tiger um það að vera ekki í lokaráshópnum, eftir að hafa lokið 3. hring í gær (en ekki tókst að ljúka 3. hring á laugardeginum vegna myrkurs og urðu m.a. Tiger og Sergio Garcia að ljúka leik sínum á sunnudagsmorgninum. „Ég er jafn öðrum í efsta sæti. Ég er næstum því í honum (lokaráshópnum) og er að spila vel. Ég ætla upp á hótel að hvíla mig og koma frískur aftur eftir hádegi,“ sagði Tiger.

Sergio Garcia varð fúll snemma á 3. hring á laugardeginum þegar hann spilaði með Tiger. Þegar hann stóð yfir 2. höggi sínu á par-5 2. brautinnni heyrði hann læti fyrir aftan sig um 50 metra í burtu.  Tiger hafði þá tekið 5-tré úr poka sínum og bara það olli því að áhorfendur fóru að fagna.

Sjónvarpsupptökur sýna að Garcia var ekki í baksveiflunni, heldur stóð yfir bolta sínum þegar áhangendurnir fögnuðu, en hann sagði að þetta hefði klárlega haft áhrif á högg hans. Tiger var umkrigndur áhorfendum og gat ekki séð Garcia og það er fremur ólíklegt að hann hafi mátt gera sér grein fyrir að áhorfendur byrjuðu að fagna, bara vegna þess að hann tók kylfu upp úr pokanum.

Tiger vissi ekki um að þetta væri eitthvað mál fyrr en hann heyrði komment Garcia meðan leikur tafðist vegna veðurs. Hann sagði að þeir hefðu ekki talað um þetta.

„Það var ekki mikið um samræður milli okkar,“ sagði Tiger öfugt við Casey Wittenberg, sem Tiger spilaði með lokahringinn á The Players. Tekið var eftir hversu vel fór á með þeim. Þeir töluðu saman og virtust skemmta sér á vellinum.

Garcia og Tiger komu s.s. áður sagði aftur á sunnudagsmorgninum til að ljúka við 3. hringinn. Garcia hitti ekki inn á flöt á par-4 15. brautinni og fékk skolla meðan Tiger tvípúttaði fyrir pari. Báðir fengu síðan fugl á par-5 16. brautina, Garcia smellhitti 17. flötina boltinn fór í flaggið og hann náði fugli (öfugt við flumbrugang hans á lokahringnum þegar hann var með 7 högg á þessa eina frægustu par-3 holu í heimi).  Tiger hins vegar fékk öruggt par.  Báðir pöruðu síðan 18. holuna.

Síðan voru báðir að því er virtist fegnir að þurfa ekki að spila saman lokahringinn.  Báðir hafa unnið The Players mótið Tiger 2001 og Sergio Garcia 2008.