Dave Hill
Ragnheiður Jónsdóttir | september. 29. 2011 | 07:00

PGA: Dave Hill látinn

James David Hill, alltaf kallaður Dave 13-faldur sigurvegari á PGA Tour er látinn, 74 ára að aldri. Hann hafði glímt við lungnaþembu í nokkur ár.

Dave fæddist 20. maí 1937 í Jackson, Michigan. Hann byrjaði ferilinn með því að spila með golfliði University of Detroit í bandaríska háskólagolfinu og gerðist atvinnumaður 1958. Þrjá af 13 sigrum sínum á PGA vann Dave árið 1969. Árið 1970 hlaut hann Vardon Trophy, sem er veittur þeim kylfingi sem er með lægsta meðalskorið en skor Dave  var 70,34. Dave var í 3 Ryder Cup liðum Bandaríkjanna; 1969, 1973 og 1977. Eins sigraði hann 6 sinnum á Champions Tour.

Dave var einkum þekktur fyrir beitt háð og húmor. Hann var ofarlega á lista PGA yfir þá, sem hlutu flestar sektir og útilokanir úr keppnum fyrir að blóta og brjóta kylfur og að því leyti einskonar John Daly síns tíma, en á sama tíma gjörólíkur þeim kappa.

Besta árangri sínum í risamóti (2. sæti) náði Dave árið 1970 á US Open. Spilað var á Hazeltine National Golf Club í Chaska, Minnesota. Dave varð frægur á því móti ekki aðeins vegna frábærrar spilamennsku sinnar heldur umsagnar um Hazeltine golfvöllinn. Aðspurður hvað honum þætti um völlinn sagði hann: „Ég er enn að leita að honum.”  Og þegar enn var spurt hvað honum fyndist að vellinum svaraði Dave: „Það vantar bara 80 ha af landi, maís og nokkrar kýr. Þeir eyðilögðu gott bóndabýli þegar þeir byggðu þennan völl.” Eins sagði hann að golfvallararkítektinn Robert Trent Jones hlyti að hafa snúið teikningunum við þegar völlurinn var byggður.

„Það sem hann sagði um Hazeltine var bara hreinasti sannleikur,” sagði Mike Hill, yngri bróðir Dave og þrefaldur sigurvegari á PGA. „Kylfingar eins og Arnold Palmer, Jack Nicklaus og Gary Player sátu í búningsherberginu og hlógu. Þeir vissu að þetta var satt en enginn þeirra vildi blanda sér í málin, þeir hefðu aldrei sagt eins og var. Hann (þ.e. Dave) hafði ákveðnar skoðanir og var þrjóskur. Ef hann sá eitthvað sem ekki var eins og það átti að vera talaði hann hreinskilningslega um það. Hann var vanur að segja:„Ef þér líka ekki svörin, ættirðu ekki að spyrja þessara spurninga.”

Annað atvik sem komst í hámæli gerðist á Colonial National Invitation. Dave spilaði á 75-81 og komst ekki í gegnum niðurskurð. Hann var svo ergilegur að á síðustu holu henti hann golfboltanum úr sandglompu, sem hann lenti í.  Honum var vísað úr keppni, en ekki vegna golfbolta-atviksins heldur fyrir að skrifa undir rangt skorkort. Í næsta móti, sem Dave ætlaði að taka þátt í, Danny Thomas Memphis Classic var hann sektaður um $500 fyrir hegðun ósæmandi atvinnumanni í golfi, sem hann greiddi en Dave fór síðan í mál við PGA og krafðist $1 milljónar í skaðabætur. Í kjölfarið var Dave settur í leikbann. Dave hækkaði þá bótakröfuna í  $3 milljónir. Samið var utan réttar við Dave og leikbanninu lyft innan 1 árs (sem verður að teljast fremur hraður málsmeðferðartími í Bandaríkjunum).

Loks er e.t.v. rétt að geta þess að Dave lék lítið hlutverk í Walt Disney kvikmyndinni „Now you see him, now you don´t,” (1972), með Kurt Russel í aðalhlutverki, en myndin var framhald kvikmyndarinnar „The Computer Wore Tennis Shoes”.

Dave lætur eftir sig soninn David og dótturina Lauru. Útför Dave fer fram n.k. sunnudag, 2. október, frá Clark Lake Golf Course, í Brooklyn, Michigan.