Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 7. 2012 | 07:30

PGA: Daníel Chopra fékk tvo ása á sama æfingahring á Pebble Beach!

Golf 1 hefir verið að kynna nýju strákana á PGA mótaröðinni 2012.  Einn þeirra er nýliðinn Richard H. Lee, sjá kynningu Golf 1, með því að smella HÉR: 

Richard spilaði æfingahring í gær á Pebble Beach Golf Links með sænsk-indverska kylfingnum, Daniel Chopra, en nú í vikunni hefst AT&T Pebble Beach National Pro-Am. Chopra fór holu í höggi á 2 holum á einum og sama hringnum: þeirri 7. og þeirri 17, en báðar eru par-3. Richard twittaði um það sem hann sá og bætti við að sér fyndist hann heppinn að hafa fengið að vera vitni að afreki Chopra.

Þetta eru tvær sögufrægustu par-3 holur á einum flottasta golfvelli heims, Pebble Beach… eins og það að fara holu í höggi tvisvar sama daginn væri ekki nógu flott!!!

Skv. Richard H. Lee var pinninn á holu nr. 7 vinstra megin við miðju en á holu nr. 17 framarlega fyrir miðju til hægri…. sem þýðir að gott var að fylgjast með boltanum rúlla í holuna.

Það voru svona 103 yardar (94 metrar) að holu nr. 7 og Chopra notaði gap wedge (á bilinu 50°-54°) og á 17. voru 176 yardar (161 metri) að pinna og Chopra notaði 7-járnið.

„Geðveik reynsla“ twittaði Richard H. Lee.

Hin fræga hola nr. 7 á Pebble Beach

Líkurnar á því að fara 2 sinnum holu í höggi eru 1 á móti 67 milljónum. Líkurnar slá draumahöggin á tveimur af sögufrægustu holunum á einum flottasta velli heims á einum og sama hring hefir enginn reiknað út.

Verst að afrekin voru ekki tekin upp! Það hefði verið frábært að sjá viðbrögð Chopra og þeirra sem urðu vitni að afreki hans. Þvílíkt!… að vera að eyða ásum á æfingahring!!!

Spurningin er bara hvort Chopra hafi boðið upp á tvo umganga á barnum eftir afrekið, en engum sögum fer af því.

Heimild: WUP.