Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 9. 2014 | 16:55

PGA: DA Points vísað úr mótinu á Pebble Beach vegna svampbolta – Myndskeið

DA Points var vísað úr AT&T Pebble Beach National Pro-Am mótinu, vegna þess að hann setti svampbolta undir handarkrikann á sér þegar hann tók nokkrar æfingasveiflur á teig í mótinu.

Það brýtur gegn reglu 14-3, sem bannar kylfingum að nota hjálpar- æfinga eða óvenjulegan útbúnað við keppnir.

Sjá má myndskeið af atvikinu með því að SMELLA HÉR: 

DA Points hafði ekki hugmynd um að hann hefði verið að brjóta reglu, sagði hann í viðtali við Golf Channel.

„Við stóðum bara þarna á teig. Það var kalt og það rigndi,“ sagði Points. „Ég náði í boltann og tók nokkrar æfingasveiflur og var bara að reyna að hita upp. Mér var tjáð að þetta væri óvenjulegur útbúnaður, eitthvað sem ég ætti ekki að vera með í pokanum.“

Points gekkst við broti sínu.

„Þetta er mín sök að þekkja ekki regluna og ég gengst við því,“ sagði Points. „En ég vil bara ekki að fólk haldi að ég hafi verið að nota einhverskonar tæki eða útbúnað. Þetta var grænn svampbolti, það var allt og sumt. Þetta er ekki eitthvað sem er selt á netinu eða neitt.“

Þegar Points var vikið úr mótinu á 2. mótsdegi var hann T-60.

Deginum þar áður var hann spilafélagi Condoleezu Rice í Pro-Am hluta mótsins.