Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 3. 2012 | 11:00

PGA: Brian Harman setti nýtt vallarmet á PGA National á Honda Classic – spilaði á 61 höggi

Bandaríkjamaðurinn Brian Harman er kominn í baráttu um 1. sætið á Honda Classic eftir fremur slakan 1. hring upp á 73 högg. En í gær á 2. hring setti hann glæsilegt nýtt vallarmet á PGA National golfvellinum í Flórída, þar sem Honda Classic fer fram þegar hann spilaði á -9 undir pari, 61 höggi.

Skorið eftir fyrri 9 voru 29 högg og fuglaþrenna frá og með 14. braut kom honum í -9 undir par.

Á stuttu par-3 17. brautinni náði hann „bara“ pari, sem þýddi að hann þurfti örn á 556 yarda 18. brautinni til þess að „breaka 60″ þ.e. ná töfraskorinu 59 höggum, en hann náði „bara“ öðru pari. En engu að síður bætti hann gamla vallarmetið um 3 högg.

Brian Harman, sem var fyrsti varamaður inn í mótið í upphafi viku, var í flatarglompu í 2. höggi við 18. flöt og sló rétt framhjá holunni og boltinn rúllaði u.þ.b. 2 metra frá holu. Síðan missti Harman fuglapúttið sitt.

„Bara að hafa tækifæri til þess að ná einhverju svo sérstöku gerir mann auðmjúkan en á sama tíma er það svalt,“ sagði Harman, sem eins og sagði bætti leik sinn um 12 högg frá 1. degi. „Það bara rúllaði í dag – þetta var einn af þessum dögum þar sem allt féll mín meginn og ég setti niður mörg pútt.“

Brian Harman er einn af þessum einstaka 2011 útskriftarárgangi Q-school PGA, þ.e. einn af 29 strákum sem komust í gegnum lokaúrtökumót PGA í desember s.l. og hlaut í kjölfarið kortið sitt á PGA túrnum. Golf 1 hefir verið að kynna nýju strákana og verður Brian kynntur í kvöld, en hann er einn 3 stráka sem urðu í 8. sæti Q-school PGA, 2011.