Ragnheiður Jónsdóttir | október. 17. 2011 | 02:00

PGA: Ben Crane sigurvegari McGladreys

Það var Bandaríkjamaðurinn Ben Crane sem sigraði landa sinn, Webb Simpson í umspili á Sea Island fyrir 1. sætið á McGladreys mótinu.

Báðir voru að loknum hefðbundnum leiktíma búnir að spila á -15 undir pari, 265 höggum; Ben Crane (65 70 67 63) og Webb Simpson (63 67 69 66).

Ben Crane kom sér í sigurstöðu með glæsilegum lokahring upp á 63 högg, en á skorkorti hans voru 8 fuglar og 1 skolli.  M.a. fékk hann 4 fugla í röð á 14.-17. braut

Ben Crane sigraði Webb Simpson síðan á 2. holu umspils, þar sem Webb missti stutt 1 meters pútt.

Í 3. sæti varð Michael Thompson á -14 undir pari aðeins 1 höggi á eftir þeim Crane og Simpson. Í 4. og 5. sæti voru Suður-Afríkubúarnir, Louis Oosthuizen á -13 undir pari og Trevor Immelman á -12 undir pari.

Af þeim sem leitt höfðu mótið á fyrri keppnisdögum mætti geta að Billy Horschel, sem er að berjast fyrir að halda kortinu sínu á PGA varð í 20. sæti ásamt 5 öðrum kylfingum.

Til þess að sjá úrslit á McGladreys, smellið HÉR: 

Til þess að sjá hápunkta á 4. og lokahring McGladreys smellið HÉR: