Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 14. 2015 | 13:00

PGA: Adam Scott komst ekki gegnum niðurskurð á Valspar

Nr. 4 á heimslistanum, Adam Scott, komst í gær ekki í gegnum niðurskurð á Valspar Championship, sem fram fer á Copperhead golfvellinum á Innisbrook golfstaðnum, í Flórída, sem margir Íslendingar kannast við.

Það þykja nú heldur betur fréttir til næsta bæjar enda flestir fréttamiðlar með fréttir af því í gær.

Þrjú ár eru síðan að Scott komst ekki í gegnum niðurskurð.

Kannski að andvökunætur séu farnar að taka toll af Scott, en hann er nýbakaður faðir; eða þá þetta er með vilja gert til þess að fá meiri tíma til þess að æfa sig fyrir það mót sem skiptir atvinnukylfingana mestu máli: Masters risamótið, sem sífellt nálgast.

Fleiri tilgátur hafa verið settar fram af hverju Scott komst ekki í gegnum niðurskurð en fæstar taka því trúanlegt að leik hans sé að hraka – þetta sé einfaldlega slæmur golfdagur hjá honum, sem jafnvel þeir bestu eigi.  Hann var að spila sæmilega fyrri daginn (var á sléttu pari) en átti bara slæman 2. hring, upp á 4 yfir pari 75 högg, sem er allt, alltof mikið!

Scott lék á samtals 4 yfir pari, 146 höggum  (71 75) og það er einfaldlega of mikið en hann hefði samtals þurft að vera á 1 yfir pari eða betur til að komast í gegn!!!  Það munaði 3 höggum hjá Scott.