Ragnheiður Jónsdóttir | september. 20. 2014 | 12:00

PGA: 5 kylfingar tilnefndir til titilsins kylfingur ársins

PGA mótaröðin hefir tilnefnt 5 kylfinga sem koma til greina til að hljóta heiðurstitilinn „kylfingur ársins.“

Tilnefningu hlutu: Rory McIlroy, frá Norður-Írlandi, sem sigrað hefir á tveimur risamótum á árinu þ.e. Opna breska og PGA Championship, Bandaríkjamaðurinn Billy Horschel, sem sigraði í 2 mótum FedExCup umspilsins BMW Championship og Tour Championship,  Martin Kaymer sem sigraði í The Players (sem oft er nefnt 5. risamótið í karlagolfinu) og Opna bandaríska risamótinu, Bubba Watson sem sigraði á The Masters risamótinu í 2. skipti á 2 árum og Jimmy Walker, sem átt hefir frábært tímabil á PGA Tour og sigrað í 3 PGA mótum á tímabilinu.

Jafnframt hefir PGA mótaröðin upplýst hverjir tilnefndir eru til titilsins „nýliði ársins“ en það eru þeir: Victor Dubuisson; Chesson Hadley og Brooks Koepka.

Það eru kylfingar á PGA mótaröðinni, sem kjósa innbyrðis um hverjir komi til með að hljóta þessa tvo titla og lýkur kjörinu 25. september n.k.

Tiger Woods hlaut titilinn kylfingur ársins á PGA í fyrra, 2013 og Jordan Spieth var valinn nýliði ársins það ár.