Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 21. 2012 | 10:15

PGA: „Gonzo“ telur sig geta unnið Tiger á heimsmótinu í holukeppni

Spánverjinn, Gonzalo Fernandez-Castaño („Gonzo“) trúir því að hægt sé að sigra Tiger Woods, en hann er í miðjum undirbúningi fyrir WGC World Match Play (heimsmótið í holukeppni), sem hefst nú í vikunni.

Gonzo, sem er nr. 48 á heimslistanum hefir aldrei spilað við Tiger og fær nú tækifæri til að fylgjast með honum (Tiger) úr mestu nálægð þegar þeir spila saman 1. hring á miðvikudaginn.

Spánverjinn (Gonzo) sagði að það væri sér heiður að fá að spila við fyrrum nr. 1 á heimslistanum, en sagði jafnframt að tækifærið til þess að vera „risadrápsmaður“ (ens. „giantkiller) væri fyrir hendi.

„Þetta er stórkostlegt tækifæri og maður verður að líta á það þannig,“ sagði hinn 31 árs gamli Gonzo. „Ef maður tíar upp á miðvikudaginn og hugsar með sér: „Æ, nei, ég er að spila á móti Tiger,“ þá er það ekki nokkur leið að byrja mótið.“

„Ég er undirmálsmaðurinn, ég hef engu að tapa. Og á sama tíma held ég að hann sé ekki kominn í sitt besta form þannig að þetta er gott tækifæri. Ef ég spila vel get ég unnið hann.“

Heimild: Sky Sports