Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 3. 2023 | 18:00

Perla Sól og Gunnlaugur Árni keppa á The Junior Orange Bowl í Flórída

Gunnlaugur Árni Sveinsson, GKG, og Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GR, hefja leik í dag á The Junior Orange Bowl unglingamótinu sem fram fer í Flórída í Bandaríkjunum.

Golfmótið er boðsmót þar sem að margir af bestu kylfingum Bandaríkjanna í unglingaflokki er boðið til leiks ásamt alþjóðlegum landsmeisturum víðsvegar úr veröldinni.

Gunnlaugur Árni fagnaði sigri á Íslandsmótinu í golfi í flokki 17-18 ára á síðasta ári, hann varð einnig Íslandsmeistari í holukeppni í sama aldursflokki og stigameistari.

Perla Sól, sem er 16 ára, varð Íslandsmeistari í golfi í Vestmanneyjum árið 2022 – næst yngsti sigurvegarinn í kvennaflokki frá upphafi. Hún varð Evrópumeistari 16 ára og yngri og hefur á undanförnum árum fagnað Íslandsmeistaratitli í höggleik og holukeppni í sínum aldursflokki.

Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit á mótinu.  

The Junior Orange Bow íþróttamótið á sér langa sögu og var fyrst haldið árið 1948.

Í dag er keppt í mörgum íþróttagreinum í ýmsum aldursflokkum á þessu móti. Árið 2018 voru 7.500 keppendur á aldrinum 5-18 ára.

Golfmótið fór fyrst fram árið 1964 hjá piltum og árið 1977 var fyrst keppt í stúlkuflokki.

Andy North, Craig Stadler, Hal Sutton, Mark Calcavecchia, Bob Tway, Billy Mayfair, Willie Wood, Jose Maria Olazabal, Bubba Watson, Tiger Woods, Romain Wattel og Lexi Thompson eru á meðal þekktra atvinnukylfinga sem hafa sigrað á þessu móti.

Mynd og texti: GSÍ