Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 26. 2013 | 22:00

Opna bandaríska risamótið í kvennagolfinu hefst á morgun!

Verður það sigurvegari síðustu helgi á Walmart mótinu í Arkansas, nr. 1 á Rolex-heimslista kvenna, Inbee Park frá Suður-Kóreu,  sem stendur uppi sem sigurvegari á 3. risamóti ársins í kvennagolfinu, þ.e. US Women´s Open, sem hefst á morgun?

Þetta er í 68. skiptið sem US Women´s Open fer fram og að þessu sinni er leikið  á einum golfvalla Sebonack golfklúbbsins í Southampton, N.Y.

Þátt taka 156 bestu kvenkylfingar heims og keppt er um einn stærsta tékka í kvennagolfinu $ 585.000,-

Sú sem á titil að verja er Na Yeon Choi frá Suður-Kóreu, en hún vann á US Women´s Open í fyrra þegar það fór fram á Blackwolf Run golfvellinum í Kohler, Wisconsin.

US Women´s Open er elsta risamót kvennagolfsins en það fór fyrst fram 1946. Margir þekktustu kvenkylfingar sögunnar hafa sigrað í mótinu m.a. Annika Sörenstam, Laura Davies, Mickey Wright, Louise Suggs, Babe Zaharias og margir aðrir.