Nelly Korda í Tokyo
Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 5. 2021 | 08:30

Ólympíuleikarnir 2020: Nelly Korda í forystu – jafnaði ólympíumet!

Bandarísk/tékkneski kylfingurinn Nelly Korda hefir tekið forystuna í golfkeppni kvenna á Ólympiuleikunum í hálfleik.

Hún kom inn á ótrúlega lágu skori á 2. hring í gær 62 höggum og gældi við 59 högg á 18. braut – en fékk því miður   tvöfaldan skolla.

En með skori sínu –  9 undir pari – 62 höggum  jafnaði hún metið fyrir lágt skor kvenna á Ólympíuleikunum.

Á hringnum, sem leikinn var í feiknahita,  fékk Korda m.a örn á 6. holu Ólympíugolfvallarins í Tokyo. En hún var ekki sú eina með örn á 2. hring – Kim Metraux frá Sviss fékk sérlega glæsilegan örn á 1. holu vallarins.

Samtals er Nelly Korda nú á 13 undir pari og hefir 4 högga forskot á þær sem næstar koma: hinar dönsku Emily Pedersen (63) og Nönnu Coertz Madsen (64)  og Aditi Ashok (66) frá Indlandi.

Madelene Sagström frá Svíþjóð, sem leiddi eftir 1. hring, lék vel á 68 höggum; en það dugði lítið gegn feykilágu skori þeirra sem á undan henni eru og er því nú í 5. sæti.

Spennandi keppni hjá kvenkylfingunum á Ólympíuleikunum framundan í dag!

Sjá má stöðuna í golfi hjá konunum á Ólympíuleikunum að öðru leyti með því að SMELLA HÉR: