Ragnheiður Jónsdóttir | október. 1. 2013 | 16:00

Olesen í 1. skipti í Seve Trophy

Thorbjörn Olesen tekur í 1. skipti þátt í Seve Trophy – en liðsskipan sérstaklega liðs Breta&Íra komst í fréttirnar þar sem það lið teflir ekki fram sínum sterkustu mönnum þ.e. mönnum á borð við Rory McIlroy, Justin RoseIan Poulter, Lee Westwood o.fl.  Eins er lið Meginlandsins ekki skipað sterkustu mönnum þar sem m.a. Sergio Garcia vantar.

En eins dauði er annars brauð … þó engin hafi dáið hér.

Fjöldi frambærilegra kylfinga fær nú tækifæri til að stíga sín fyrstu spor í Seve Trophy.

Olesen er einn þeirra en sérlega minnisstæð á árinu er glæsiframmistaða hans á The Masters risamótinu.  Aðrir sem eru nýir í liði Meginlandsins eru Hollendingurinn Joost Luiten og Frakkinn Grégory Bourdy.

Í liði Breta&Íra stíga sín fyrstu skref kappar á borð við Simon KhanTommy Fleetwood, Stephen Gallacher og David Lynn.

Olesen, sem að sjálfsögðu keppir fyrir lið Meginlandsins sagði eftir útnefninguna í liðið: „Það er gaman að vera fulltrúi Evrópu – það er mikill heiður – Vonandi náum við að sigra  lið Breta&Íra.  Ég hef spilað mikið í fótbolta og mér finnst gaman að keppa í liði. Ég hugsa að það falli að leik mínum og skapgerð þannig að ég hlakka reglulega til.“