Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 25. 2012 | 13:00

Olázabal velur Miguel Ángel Jiménez sem fjórða varafyrirliða sinn í Ryder Cup

Fyrirliði evrópska Ryder Cup liðsins, José Maria Olázabal, hefir valið landa sinn Miguel Ángel Jiménez, sem fjórða og síðasta varafyrirliða sinn.

Jiménez verður því í hóp þeirra Paul McGinley, Darren Clarke og Thomas Björn þegar lið Evrópu í Ryder Cup hefur titilvörn sína í Medinah Country Club í Chicago, í Bandaríkjunum, dagana 28.-30. september 2012.

Olazabal sagði af því tilefni: „Ég hef nú fjóra heimsklassakylfinga sem varafyrirliða,“ og bætti við að „allir hafa þeir gífurlega reynslu af því að spila í Ryder Cup keppninni sem er algjörlega ómetanleg.“

Jimenez var varafyrirliði hjá Seve Ballesteros árið 1997 og hefir keppt í 4 Ryder Cup keppnum, þ.á.m. var hann í sigurliðum Evrópu 2004 og 2010.

Olazabal mun útnefna þá tvo sem eru „val fyrirliða“ n.k. mánudag og eru Englendingurinn Ian Poulter og Belginn Nicolas Colsaerts taldir ansi heitir að hljóta þann heiður.