Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 28. 2013 | 11:00

Olazabal, Kahn og Matsuyama meðal þeirra sem komust í gegnum úrtökumót fyrir Opna bandaríska

José Maria Olázabal, 47 ára,  fyrirliði sigurliðs Evrópu í Ryder Cup var einn af 12 kylfingum, sem náði að komast í gegnum úrtökumót  á Walton Heath og tryggja sér sæti á Opna bandaríska risamótinu, sem fram fer í Merion Golf Club í Pennsylvaníu, 13.-16. júní n.k., en hann lék á alls 3 undir pari, 141 höggi (68  73) og varð að fara í bráðabana við 5 aðra keppendur.

„Ég er mjög ánægður með að vera að fara á Merion,“ sagði tvöfaldi risamótsmeistarinn á Masters (Olazabal) „Það er ekki oft sem maður tekur þátt í sex manna bráðabana þannig að ég er ánægður að komast í gegn.“

Spánverjinn (Olazabal) og bresku kylfingarnir David Howell og John Parry komust allir gegnum fyrstu holu bráðabanans.

Estanislao Goya frá Argentínu (kærasti Carly Booth) og Bretinn Chris Doak komust sömuleiðis, en Svíinn Rikard Karlberg var sá eini, sem ekki komst í gegn.

Bretinn Simon Khan, sem laut lægra haldi fyrir Matteo Manassero í bráðabana á PGA Championship á Wentworth s.l. sunnudag, varð efstur í úrtökumótinu á 7 undir pari, 137 höggum og er á leiðinni á Merion.

Bretarnir Paul Casey og Eddie Pepperell, Jaco van Zyl frá Suður-Afríku, Morten Madsen frá Danmörku, Peter Hedblom frá Svíþjóð og Ástralinn Marcus Fraser komust líka í gegn og taka þátt á Opna bandaríska.

Í úrtökumóti í Japan voru það þeir Hideki Matsuyama, Jung-Gon Hwang frá Suður-Kóreu, Yui Ueda, Yoshinobu Tsukada og Hiroyuki Fujita, sem komust í gegn og munu keppa á Opna bandaríska.