Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 11. 2014 | 10:00

Ólafur Björn svekktur

Ólafur Björn Loftsson, NK, komst ekki áfram á lokastig úrtökumóts Evrópumótaraðarinnar, sem fram fer á PGA Catalunya golfvellinum , í Girona, á Spáni n.k. desember.

Ólafur Björn hafði eftirfarandi úrslitin á 2. stigi úrtökumótsins og framhaldið hjá sér:

„Komst því miður ekki áfram á lokaúrtökumótið fyrir Evrópumótaröðina. Ég er að sjálfsögðu mjög svekktur yfir úrslitunum en ég gerði mitt besta og mæti sterkari til leiks næst. Ég átti flotta kafla í mótinu en of mörg klaufaleg mistök komu í veg fyrir að ég næði takmarkinu í þetta skiptið. Það var þó frábært að Biggi komst áfram og hef ég mikla trú á að hann klári dæmið í næstu viku og komi sér á ný á mótaröð þeirra bestu.

Ég mun taka því rólega á næstu dögum og fara vel yfir stöðuna. Ég hef fulla ástæðu til að vera bjartsýnn fyrir næsta tímabil. Ég hef fullan þátttökurétt á Nordic League mótaröðinni og á möguleika á að fá boð í einhver Challenge Tour mót. Ég er staðráðinn í því að leggja enn harðar að mér að ná mínum markmiðum. Það er búið að vera góður stígandi í mínum leik undanfarið og ég mun halda ótrauður áfram að bæta mig.“

Takk fyrir allan stuðninginn enn og aftur!