Ragnheiður Jónsdóttir | september. 6. 2013 | 08:00

Ólafur Björn meiddur á úlnlið

Ólafur Björn Loftsson, NK, tekur þátt í úrtökumóti fyrir Web.Com mótaröðina, í Brunswick, Georgíu.

Leiknir eru 3 hringir án niðurskurðar og eftir 2 hringi er Ólafur búinn að spila á samtals 11 yfir pari, 151 höggi (74 77).

Ólafur Björn er í 65. sæti og hafa þetta væntanlega verið vonbrigði fyrir hann, en óvanalega hátt skor hans skýrist í ljósi þess að hann er meiddur á úlnlið.

Sjá má stöðuna eftir 2. dag á úrtökumótinu fyrir Web.Com mótaröðina í Brunswick, Georgíu með því að SMELLA HÉR: 

Á facebook síðu Ólafs Björns skrifaði hann:

„Spilaði annan hringinn á 77 (+7) höggum í dag. Gríðarlega erfiður dagur en ég var á báðum áttum hvort ég ætti að draga mig úr mótinu. Ég hef verið í smá vandræðum undanfarið með vinstri úlnliðinn minn en hann var afar aumur í dag og átti ég mjög erfitt með að beita honum almennilega í sveiflunni. Ég hitti örfáar flatir í tilætluðum höggafjölda í dag og átti lítinn möguleika á að bjarga deginum. Ég ákvað að halda áfram að berjast í dag en ég ætla að sjá til í fyrramálið hvort ég spili á morgun því ég vil að sjálfsögðu ekki gera illt verra.“