Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 2. 2015 | 12:00

Ólafur Björn lauk leik í 18. sæti á Spáni

Ólafur Björn Loftsson, NK, lauk keppni í  18. sæti á öðru móti Nordic Golf League í ár.

Mótið fór fram dagana 26.-28. febrúar í Lumine golfklúbbnum í Tarragona, á Spáni.

Ólafur lék samtals á 2 yfir pari, 217 höggum (72 73 72) og varð T-18, þ.e. deildi 18. sætinu með þeim Christian Aronsen, frá Noregi og Sebastian Hansson frá Svíþjóð.

Á facebook síðu sína skrifar Ólafur Björn eftirfarandi: 

„Ég endaði jafn í 18. sæti á öðru móti tímabilsins á Nordic League á Spáni. Ég lék hringina þrjá á 72 (E), 73 (+2) og 72 (E) höggum. Vindurinn hefur blásið stíft undanfarna daga og þurfti til að mynda að fresta leik þrisvar sinnum á öðrum degi. Mótið var nálægt því að vera aflýst en sem betur fer slapp þetta fyrir horn. Það er góður stígandi í mínum leik og ég er alltaf að læra meira og meira. Það er hörkuvinna framundan því ég veit að það er stutt í baráttuna um sigurinn og ég ætla að koma mér þangað. Sem betur fer er ég ekki á heimleið því eftir rúma viku hefjast önnur tvö mót á PGA Catalunya, einu besta golfsvæði Evrópu. Ég hlakka mikið til að draga það besta úr mér í þeim mótum.“

Til þess að sjá lokastöðuna á Nordea Tour Winter Series Hills Open, þ.e. 2. móti á Nordic Golf League SMELLIÐ HÉR: 

Þriðja mót Nordic Golf League fer fram dagana 10.-12. mars n.k. á PGA Catalunya.