Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 10. 2013 | 05:00

Ólafur Björn komst ekki í gegnum úrtökumót fyrir Opna bandaríska

Ólafur Björn Loftsson, NK, tók í gær þátt í úrtökumóti fyrir Opna bandaríska risamótið, sem að þessu sinni fer fram  á Austurvelli Merion í Ardmore, Pennsylvaníu.

Úrtökumótið sem Ólafur Björn valdi sér að taka þátt í var haldið í Edgemont Country Club, í Sissionville í Vestur-Virginíu í Bandaríkjunum.

Ólafur Björn var 2 höggum frá því að komast á næsta stig úrtökumótsins, spilaði á 72 höggum en efstu 5 komust áfram á næsta stig.

Þeir sem efstir voru og komust áfram voru:  Bryan Pierce frá Kaliforníu (67); Drew Ernst frá Suður-Karólínu (69); Lawrence Largent, frá Tennessee (70); Paul Saad, Kentucky (70) og Lanto Griffin frá Virginíu (70).

Á facebook síðu sína skrifaði Ólafur Björn m.a. eftirfarandi um úrtökumótið:

„Komst því miður ekki áfram í úrtökumóti fyrir opna bandaríska meistaramótið í Vestur-Virginíu. Lék á 72 höggum og var 2 höggum frá því að komast áfram. Leik var frestað um einn klukkutíma en það hafði rignt mjög mikið og var völlurinn á floti. Ég var mjög ósammála mótstjórn að hefja leik þar sem völlurinn var að mínu mati gjörsamlega óleikhæfur þar sem það var hvergi hægt að taka lausn frá bleytu, hvort sem það var á braut eða á flöt. Það reyndi mikið á þolinmæðina en ég var að slá vel. Ég hitti flestar brautir og flatir en pollaleikurinn á flötunum gekk illa. Ég þrípúttaði af tiltölulega stuttu færi fjórum sinnum og það var of dýrt. Næsta mót hefst eftir viku og mun ég einblína meðal annars á að vinna í sveiflunni og venjast nokkrum nýju kylfum í millitíðinni.“