Ragnheiður Jónsdóttir | október. 8. 2014 | 02:00

Ólafur Björn komst á lokastigið – Axel úr leik

Ljóst er eftir 2. hring á úrtökumótinu í Skjoldnæs Centrum að Ólafur Björn Loftsson, NK, er kominn áfram á lokastig úrtökumótsins, en Axel Bóasson, NK, er úr leik.

Ólafur Björn skrifaði eftirfarandi á facebook síðu sína eftir að ljóst var að hann hefði komist áfram:

„Eftir tvo ótrúlega krefjandi hringi í Danmörku komst ég áfram á lokastig úrtökumótsins fyrir Nordic League mótaröðina. Ég lék á 76 (+4) höggum og endaði jafn í 14. sæti en 21 kylfingur komst áfram af þessum stað. Með þessum árangri hef ég tryggt mér ákveðinn þátttökurétt á næsta ári en á lokastiginu hef ég tækifæri til að bæta mína stöðu enn fremur. Ég spilaði af mikilli skynsemi í dag og tók engar áhættur enda aðstæður gríðarlega erfiðar. Pútterinn var heitur í dag, ég held ég hafi aldrei sett jafnmörg góð pútt ofan í holu á einum hring án þess að fá fugl. Ég byrjaði á 11 pörum og kom mér í frábæra stöðu, spilaði kannski aðeins of varfærnislega síðustu holurnar en markmiðið var fyrst og fremst að komast áfram. Ég er ánægður með hvernig ég lék í þessu móti og þetta veitir mér aukið sjálfstraust fyrir lokastigið sem er haldið á þessum sama velli og hefst á fimmtudaginn. Ég á rástíma kl. 13:00 á fyrsta hring.“