Ragnheiður Jónsdóttir | september. 30. 2015 | 12:33

Ólafur Björn í 26. sæti eftir 1. hringinn í Frakklandi

Ólafur Björn Loftsson, GKG,  hóf leik í dag á fyrsta stigi úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina í golfi. Hann leikur á Hardelot vellinum í Frakklandi og lék Ólafur á 72 höggum eða +1 á fyrsta hringnum. Hann er í 26. sæti eftir fyrsta hringinn af alls fjórum en 22 efstu komast áfram á annað stigið af þessum velli.

Til þess að fylgjast með stöðunni í mótinu SMELLIÐ HÉR: 

Ólafur skrifar eftirfarandi á facebook síðu sína:

Þá er ballið byrjað! Fyrsta stig úrtökumótsins fyrir evrópsku mótaröðina hófst í morgun hjá mér í Frakklandi. Ég lék á 72 (+1) höggum og er jafn í 26. sæti eftir fyrsta hring. Ég hitti 15 flatir í tilætluðum höggafjölda og er ég mjög sáttur með það en ég hef verið í vandræðum með boltasláttinn undanfarið. Mér hefur oft liðið betur yfir boltanum en nú er komið að því að skora og nota það sem virkar best. Slæmu höggin eru að refsa mikið en ég er þó að framkalla mörg frábær högg. Endaspretturinn var glæsilegur áðan þar sem ég klíndi upp við stöng á síðustu fimm holunum og fékk þrjá afar auðvelda fugla. Mikilvægt að enda á þessum nótum og við höldum þessu áfram á næstu hringjum.