Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 27. 2013 | 12:00

Ólafur Björn hefur leik í Pinehurst í dag

Ólafur Björn Loftsson, NK,  hefur keppni í dag á Mid Pines Classic mótinu sem er hluti eGolf-mótaraðarinnar.

Á facebook síðu sinni segir Ólafur Björn m.a. um þátttökuna í mótinu:

„(Á morgun] þ.e. Í dag tek ég þátt í móti á eGolf mótaröðinni í Pinehurst í Norður-Karólínu. Mótið fer fram á Mid Pines vellinum sem er stórskemmtilegur enda töluvert öðruvísi en flestir hefðbundnir golfvellir í Bandaríkjunum. Brautirnar eru breiðar og það er enginn kargi á vellinum. Allt fyrir utan brautina er þó sandhólar og þéttur skógur. Völlurinn er tiltölulega þægilegur af teig en þeim mun erfiðar á og í kringum flatirnar. Þær eru harðar, allar uppbyggðar og ýta öllu frá sér. Járnahöggin verða lykilatriði í mótinu.

Ég kom til Bandaríkjanna fyrir viku síðan og er búinn að eyða öllum stundum í æfingar síðan. Stutta spilið er í fínu standi en það vantar svolítið upp á boltasláttinn. Æfingahringurinn í dag gekk nokkuð vel þrátt fyrir smá erfðileika í að halda boltanum á flötunum. Eitt af markmiðum mínum í þessu móti er að öðlast betra traust í sveiflunni minni og ná góðum stöðugleika fyrir mikilvægasta mót ársins sem hefst í næstu viku.Rástími kl. 13:00 á staðartíma og ég er að sjálfsögðu spenntur að tía boltann upp á fyrsta teig.“
Fylgjast má með gegni Ólafs Björns í mótinu með því að SMELLA HÉR: