Ragnheiður Jónsdóttir | október. 2. 2013 | 19:30

Ólafur Björn á 4 undir pari eftir 2. dag 1. stigs úrtökumóts fyrir Evrópumótaröðina

Ólafur Björn Loftsson, NK, tekur þátt í 1. stigi úrtökumóts fyrir Evrópumótaröðina, sem fram fer í Hardelot, Frakklandi (heimavelli Andreu Ásgrímsdóttur, golfkennara).

Ólafur Björn er búinn að leika fyrstu tvo hringi mótsins á samtals 2 undir pari, 140 höggum (73 67).

Hann er sem stendur í 20. sæti og eins og staðan er núna kominn áfram á 2. stig úrtökumótsins. Enn er þó eftir að leika 2 hring, en árangurinn er engu að síður stórglæsilegur.

Á hringnum í dag, sem  Ólafur Björn lék á stórglæsilegum 4 undir pari, 67 höggum, fékk Ólafur Björn 7 fugla og 3 skolla.  Eftir að allir höfðu komið í hús var Ólafur Björn jafn 4 öðrum í 20. sæti.

Á heimasíðu sína ritaði Ólafur Björn:

Lék á 67 (-4) höggum á öðrum hring hér í Frakklandi. Gífurlega ánægður með skorið enda enginn á lægra skori í dag þegar helmingurinn er kominn í hús. Þetta var baráttuhringur út í eitt en stöðugleikinn er því miður ekki nógu góður hjá mér í boltaslættinum núna. Ég hitti einungis fjórar brautir í dag þar sem dræverinn var arfaslakur. Það rigndi ágætlega á fyrstu holunum í morgun og það ruglaði aðeins taktinn í upphafshöggunum hjá mér. Hins vegar sló ég hvert frábæra höggið á eftir öðru með stuttu kylfunum og pútterinn var sjóðandi heitur. Ég kláraði hringinn með krafti með því að fá fugla á síðustu þrjár holurnar og ætla ég að taka upp þráðinn þar á morgun.

Ég ætla að nýta tímann vel milli hringja til að finna mig betur á æfingasvæðinu. Ég þarf að róa sveifluna aðeins niður, koma brattari niður á boltann og fá meiri yfirvegun yfir höggunum. Sama leikplan á morgun, en ég mun jafnvel leggja meiri áherslu á að halda boltanum í leik því ég treysti mér vel í klára dæmið á flötunum og þar í kring.

Eins og staðan er núna þá er ég jafn í 13. sæti, fjórum höggum á eftir efsta manni.“