Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 26. 2012 | 17:45

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir leiðir eftir fyrri hring á 1. móti Eimskipsmótaraðarinnar í Leirunni – spilaði á 76 höggum!

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR, Íslandsmeistari í höggleik 2011, er á besta skori af konunum 26 sem hófu leik í dag á fyrsta móti sumarsins á Eimskipsmótaröðinni á Hólmsvelli í Leiru í dag.

Ólafía Þórunn spilaði á 76 glæsilegum höggum þ.e. +4 yfir pari, sem verður að teljast frábært miðað aðstæður, en það hvessti þó nokkuð seinni partinn og það var kalt.

Ólafía fékk 3 fugla, 5 skolla og 1 skramba á fyrsta hring sínum á mótaröðinni í sumar.  Þetta er ekki síður frábært skor í ljósi þess að mikill munur er á veðráttu hér og í Norður-Karólínu, en Ólafía en nýkomin frá Bandaríkjunum, líkt og margir af okkar bestu kylfingum, sem eru við nám í Bandaríkjunum og eru  að koma úr miklum hita í kuldann hér svo viðbrigðin eru mikil.

Nokkrar eiga eftir að ljúka leik þegar þetta er ritað en ekki nokkur sem getur náð Ólafíu.

Í 2. sæti eftir fyrri hring mótsins  er Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, sem átti svo magnaðan hring á Garðavelli síðustu helgi upp á 66 högg!!!

Í dag spilaði hún á 79 höggum og er 3 höggum á eftir Ólafíu Þórunni.