Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR. Mynd: Í einkaeigu
Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 10. 2016 | 10:00

Ólafía Þórunn hefur leik í Indlandi á morgun!

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur leik á Hero Challenge atvinnumótinu á föstudaginn en mótið er hluti af LET Evrópumótaröð kvenna í golfi. Ólafía vakti mikla athygli í síðustu viku þegar hún var í efsta sæti þegar keppni var hálfnuð í Abu Dhabi en hún endaði í 26.-29. sæti á -7 samtals. Besti árangur Ólafíu er 16. sæti á sterkustu atvinnumótaröð kvenna í Evrópu á þessu tímabili.

Nánari upplýsingar um mótið má nálgast með því að SMELLA HÉR: 

Ólafía Þórunn hefur leik kl. 11.40 að staðartíma á Indlandi eða 6.20 að morgni að íslenskum tíma.

Staðartími í Dehli er 5 ½ klst. á undan staðartíma á Íslandi. Á öðrum kepnpisdegi af alls þremur hefur Ólafía leik kl. 7.40 að staðartíma eða kl. 01:20 aðfaranótt laugardagsins 12. nóvember hér á Íslandi.

Í ráshóp með Ólafíu Þórunni fyrstu tvo keppnisdagana verða þær Alex Peters frá Englandi og Victoria Lovelady frá Brasilíu.

Keppt er á DLF Golf and Country vellinum í Dehli.

Það er að miklu að keppa fyrir Ólafíu Þórunni á þessu móti – en hún er í 105. sæti stigalista LET Evrópumótaraðarinnar. Til þess að halda keppnisrétti sínum á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu þarf Ólafía að þoka sér í hóp 80 efstu áður en að tímabilinu lýkur. Ef það tekst ekki þá þarf Ólafía að fara í gegnum lokaúrtökumótið í desember í Marokkó.

Ólafía Þórunn hefur nú þegar tryggt sér keppnisrétt á Symetra atvinnumótaröðinni í Bandaríkjunum með því að komast í gegnum 1. og 2. stig úrtökumótsins fyrir LPGA mótaröðina í Bandaríkjunum.

Ólafía þarf að sleppa nokkrum verkefnum á LET Evrópumótaröðinni eftir mótið á Indlandi þar sem þau stangast á við undirbúning hennar fyrir lokaúrtökumótið á LPGA mótaröðinni í sem fram fer í lok nóvember.

Ólafía er eini íslenski kvenkylfingurinn sem hefur náð því að fara í gegnum 1. og 2. stig úrtökumótsins fyrir LPGA mótaröðina. Ef henni tekst að ná alla leið í gegnum lokaúrtökumótið verður hún fyrsti íslenski kylfingurinn sem nær að tryggja sér keppnisrétt á sterkustu atvinnumótaröð veraldar í kvennaflokki, LPGA mótaröðinni i Bandaríkjunum.

Texti: GSÍ