Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 22. 2016 | 19:00

Eimskipsmótaröðin 2016 (5): Ólafía með tveggja högga forskot – vallarmetið jafnað í tvígang á Jaðarsvelli í dag

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR er með tveggja högg forskot þegar keppni er hálfnuð á Íslandsmótinu í golfi á Jaðarsvelli á Akureyri. Ólafía, sem tvívegis hefur fagnað þessum titli, jafnaði eigið vallarmet í dag og lék á 68 höggum eða -3. Hún er samtals á -4 en Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni kemur þar næst á -2 samtals en hún lék á 69 höggum í dag. Valdís hefur einnig fagnað Íslandsmeistaratitlinum tvívegis.

Þetta var einfaldara í dag ég fékk 6 fugla og 25 pútt, Alfreð bróðir minn vann mig með einu í gær þegar hann var með 25 pútt. Ég vissi ekkert á hvaða skori ég var og var í mínum eigin hugarheimi. Ég fékk 6 högg á 10 braut sem er var lélegt og maður á ekki að fá skramba í golfi. Ég er á svipuðum stað í dag og ég ætlaði mér fyrir þetta mót en það er nóg eftir“ sagði Ólafía Þórunn Kristinsdóttir sem varð Íslandsmeistari 2011 og 2014.

Ég var sáttari í gær eftir hringinn í gær þegar ég náði að koma mér á parið en ég er ekki ánægð með hringinn í dag,“ sagði Valdís Þóra Jónsdóttir sem lék á 69 höggum í dag eða -2. Hún byrjaði hringinn af miklum krafti og var hún þrjá undir pari eftir fjórar holur með tvo fugla og einn örn. „Eftir 7. holuna fór ég að slá léleg högg sem ég á ekki að slá, ég setti ekki pútt ofaní sem voru góð færi og þetta þarf ég að laga fyrir næstu daga. Það er nóg af golfi eftir og markmiðið er að koma sér í stöðu fyrir lokadaginn,“ sagði Valdís Þóra Jónsdóttir sem varð Íslandsmeistari 2009 og 2012.
1. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir , GR (70-68) 138 högg -4
2. Valdís Þóra Jónsdóttir, GL (71-69) 140 högg -2
3. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK (72-72) 144 +2
4. Signý Arnórsdóttir, GK (77- 68) 145 högg +3
5.-6. Berglind Björnsdóttir, GR (75-75) 150 högg +8
5.-6. Anna Sólveig Snorradóttir, GK (75-75) 150 högg +8
7.-8. Gunnhildur Kristjánsdóttir, GK (74-79) 153 högg +11
7.-8. Ragnhildur Kristinsdóttir, GR (77-76) 153 högg +11
9.-10. Sunna Víðisdóttir, GR (78-77) 155 högg +13
9.-10. Helga Kristín Einarsdóttir, GK (76-79) 155 högg +13