Helmut Stolzenwald, einn af stofnendum Golfklúbbsins að Hellu á Gaddstaðaflötum 1952-1957. Mynd: Í eigu Ólafs Stolzenwald.
Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 29. 2012 | 18:00

NÝTT! Saga Golfklúbbs Hellu í 60 ár – GHR í 60 ár (1. hluti af 12) – tekið saman af Ólafi Stolzenwald

Þann 22. júní s.l. hélt Golfklúbburinn á Hellu upp á 60 ára afmæli sitt.  Ólafur Stolzenwald, prentsmiðjustjóri hefir varið drjúgum tíma í að taka saman sögu þessa 4. elsta golfklúbbs landsins og sendi góðfúslega samantekt sína sögu Golfklúbbs Hellu, sem hér birtist í 12 hlutum á Golf 1 í tilefni af merkisafmælinu. (Athugið að lesa má alla sögu Golfklúbbs Hellu í samtantekt Ólafs í heild, með því að smella á tengil hér fyrir neðan).  Hér fer 1. hlutinn:

Fyrsti völlurinn á Gaddstaðaflötum

Golfklúbbur Hellu var stofnaður 22. júni 1952 og varð því 60 ára á þessu ári.  Aðalhvatamenn og stofnendur klúbbsins vorur Ásgeir Ólafsson og Helmut Stolzenwald á Hellu, en Rúdólf Stolzenwald varð fyrsti formaður golfklúbbsins.   Klúbbnum áskotnaðist land á Gaddstaðaflötum sem nú er mannvirki hestamannafélagsins og hestamannavöllur.  Fyrsti völlur klúbbsins var níu holur og var leikið á honum nokkuð reglubundið til ársins 1958, en þá missti klúbburinn landið. Vegna fámennis og vallarleysis lagðist klúbburinn niður tímabundið um 1960.   Skammstöfun klúbbsins var þá GH en varð síðar GHR.

Á þessum tíma var eitthvað um heimsóknir kylfinga frá Vestmannaeyjum og Hveragerði og vitað er um eina keppni á milli Golfklúbbs Reykjavíkur og Golfklúbbs Vestmannaeyja á vellinum.   Vitað er um að spilaður var fótbolti þarna á svæðinu um 1955. Einnig segja sögur að flugvöllurinn á Hellu hafi verið notaðar til æfinga hjá þeim áhugamestu þegar vallaraðstaða var ekki lengur til staðar.

Þeir kylfingar sem voru að spila völlinn og læra golfíþróttina á þessum tíma og vert er að nefna (auk þeirra sem fyrr eru nefndir) eru:  Óskar Einarsson, Sigurður Karlsson, Bragi Gunnarsson, Einar Kristinsson, Svavar Kristinsson, Bjarnhéðinn Guðjónsson, Hjörleifur Jónsson, Ingólfur Jónsson og Guðlaug Ingólfsdóttir frá Hellu og frá Þykkvabæ, Magnús Sigurlásson og Hilmar Friðriksson, meðal annarra.   Klúbbmeðlimir nutu einhverrar leiðsagnar frá Ásgeiri Ólafssyni og syni hans Þorvaldi Ásgeirssyni.  Margfaldur íslandsmeistari kom einnig og leiðbeindi okkar brautryðjendum.  Ásgeir var einnig í stjórn Golfklúbbs Íslands og varð golfmeistari öldunga árið 1950.

Skoða má samantekt Ólafar Stolzenwald á sögu Golfklúbbs Hellu í heild með því að SMELLA HÉR: