Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 16. 2012 | 07:15

NÝTT: Mesta eftirsjá stórkylfinga: (nr. 1 af 20) Yani Tseng

Hér í dag byrjar ný greinaröð á Golf 1, þar sem stórkylfingar segja frá því hverju þeir sjá mest eftir á ferlinum.

Byrjum á Yani Tseng frá Taíwan. Hún er aðeins 23 ára en þegar sá kylfingur hvort heldur karl eða kona sem unnið hefir flest risamót, eða 5 talsins svona ung. Hún er líka núverandi nr. 1 á Rolex-heimslista kvenkylfinga.

Skyldi hún yfirleitt sjá eftir nokkru, með svona glæsilegan feril?

Jú, Yani er bara eins og hver annar kylfingur þegar kemur að eftirsjá.  Hún átti titil að verja á Kraft Nabisco Championship í fyrra, 2011, fyrsta risamóti ársins og var með 2 högga forystu fyrir lokahringinn. Verðlaunagripurinn var á fyrsta teig á lokahringnum. Yani segist hafa gengið að borðinu og lyft honum í loft upp eins og hún hefði þegar unnið.  Hins vegar var skorið á þessum lokahring hennar upp á 74 högg og hún varð í 2. sæti og munaði 3 höggum á henni og sigurvegarnarum (Stacy Lewis frá Bandaríkjunum) þegar upp var staðið.

Á næsta risamóti, LPGA Championship, sagðist Yani líka hafa verið með mikið forskot fyrir lokahringinn. Aftur sat verðlaunagripurinn á borði við 1. teig á lokadegi mótsins.  Yani segist ekki einu sinni hafa litið á hann, en spilaði á 66 höggum og vann mótið með 10 höggum.

Gefum Yani lokaorðið:  „Ég lærði að mót eru ekki búin fyrr en búið er að spila síðustu holuna og það er ekki hægt að leyfa huganum að stökkva fram í tímann.“

Heimild: Golf Digest