Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 20. 2013 | 00:30

GL: Nýtt Íslandsmet í golfmaraþoni sett á Akranesi

Eftirfarandi frétt var í fréttamiðlinum Skessuhorni á Vesturlandi:

„Ungir kylfingar úr Golfklúbbnum Leyni á Akranesi hafa að undanförnu aflað fjár til æfingaferðar til Novo Sanctri Petri í byrjun næsta mánaðar. Í þeim tilgangi efndu þeir til golfmaraþons um síðustu helgi og höfðu áður safnað áheitum meðal bæjarbúa. Golfmaraþonið fór fram á æfingasvæðinu í Teigum á Garðavelli. Níu strákar á aldrinum 14-17 ára í afreksefnahópi Leynis æfðu golf í 25 klst. samfellt. Byrjað var klukkan átta á laugardagsmorgun. Tveir til þrír slógu til skiptis og síðan var spilað sleitulaust til klukkan níu á sunnudagsmorgun. Þar með var Íslandsmetið slegið en fyrra metið var nákvæmlega einn sólarhringur, eða 24 tímar, sett af afreksefnahópi Leynis 2008. Mjög gott veður var allan tímann sem golfmaraþonið fór fram, 1-3 stiga frost og lygnt. Í tilkynningu frá Leyni segir að golfstrákarnir vilji þakka kærlega öllum þeim fjölmörgu sem styrktu þá með áheitum.“

Heimild: Skessuhorn