Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 29. 2013 | 10:00

NÝTT!!!: Golf1.is á þýsku!

Í dag birtast fyrstu golffréttirnar á þýsku  í nýjum þýskum hluta Golf1.is og mun þetta vera í fyrsta sinn sem golffréttir á þýsku eru birtar með reglulegum hætti á íslenskum miðli.  Það eina sem þarf að gera til þess að komast á þýska hluta Golf1.is er að smella á þýska fánann á forsíðu Golf1.is

Þann 26. október 2011 var í tilraunaskyni hafist handa við að skrifa golffréttir á ensku á Golf1.is

Nú bætast við golffréttir um golf á Íslandi á þýsku og er Golf1.is því eini golffréttavefurinn, sem skrifar golffréttir á 3 tungumálum: íslensku, ensku og þýsku.

Áhugi erlendra kylfinga á Íslandi og íslenskum golfvöllum er nefnilega mikill, sem sést m.a. á að umferð þeirra um Golf1.is hefir verið að aukast.

Þess hefir orðið vart að Þjóðverjar vilji lesa sínar fréttir um Ísland á þýsku. Þeir eru líka stærsti hópur ferðamanna sem sækir okkur heim og því ekki úr vegi að verða við óskum um golffréttir um Ísland á þýsku, sumarið 2013.

Fréttirnar koma til með að birtast a.m.k. 1 sinni í viku fyrst um sinn og miða að því að kynna Ísland almennt, íslenska golfvelli, íslenska kylfinga og golf á Íslandi, þó vissulega geti af og til slæðst annað efni inn á milli.