Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 15. 2016 | 14:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2016: Karlin Beck (10/49)

Lokaúrtökumót LPGA, möo Q-school LPGA fór fram 30. nóvember – 6. desember 2015.

Mótið fór venju skv. fram á LPGA International á Daytona Beach í Flórída.

Tuttugu stúlkur hlutu kortið sitt á LPGA í gegnum Q-school og þær sem urðu í 21. – 45 + þ.e., þær sem urðu í 21.-45. sæti eða jafnar í síðarnefnda sætinu hlutu takmarkaðan þátttökurétt í mótum LPGA.

Alls hlutu 49 stúlkur þátttökurétt á LPGA; 20 fullan þátttökurétt og 29 takmarkaðan.

Alls hafa 9 stúlkur verið kynntar, 7 sem urðu T-43 í lokaúrtökumótinu og voru neðstar af þeim sem hlutu þátttökurétt á LPGA; en væntanlega hamingjusamar með að hljóta spilarétt og síðan Caroline Westrup og Samantha Richdale, sem deildu 41. sætinu.

Næstar verða kynntar þær 5 stúlkur sem deildu 36. sætinu og voru allar með heildarskor eftir 5 hringi upp á slétt par.

Sú sem kynnt verður í dag er Karlin Beck frá Bandaríkjunum.

Karlin Beck fæddist  6. ágúst 1987 í Montgomery, Alabama og er því 28 ára. Hún er dóttir Steve og Kathy og á eina systur Kinley. Heimaklúbbur Karlin er Arrowhead Country Club, í Alabama.

Hún byrjaði að spila golf 12 ára og segir afa sinn þá manneskju sem hafi haft mest áhrif á golfferil sinn.

Meðal áhugamála Beck eru tennis, kvikmyndir, hérar og hún segir sjálf að hún sé fréttafíkill.

Á háskólaárum sínum lék hún með Auburn Tigers í bandaríska háskólagolfinu og útskrifaðist frá Auburn University, sem hagfræðingur með tvöfalda undirgráðu (ens. double minor) í frönsku og alþjóða viðskiptum, árið 2010. Til þess að sjá afrek Karlin á háskólaárum hennar SMELLIÐ HÉR:

Karlin Beck gerðist atvinnumaður í golfi, eftir útskrift úr háskóla, þ.e. í maí 2010. Hún spilaði fyrst á Futures (nú Symetra Tour) árið 2011 og var besti árangur hennar þar T-16 árangur á Tate & Lyle Players Championship í Decatur, Ill. Hún komst strax á LPGA í lok árs 2011 í fyrstu tilraun sinni sem hún reyndi við Q-school. Henni gekk ekki vel 2012, en besti árangurinn var 46. sætið á Navistar LPGA Classic.

Árið 2014 var henni ekki heldur gott og varð hún aftur að fara í lokaúrtökumótið í lok árs 2014 og sem sagt rétt slapp inn á LPGA mótaröðina með fullan spilarétt 2015.

Nú í Q-school 2105 varð hún T-36 og er ekki með fullan spilarétt þetta keppnistímabil.

Karlin segir að ef hún hefði ekki valið sér LPGA sem starfsvettvang myndi hún gjarnan hafa viljað verða endurskoðandi kvikmyndavers.