Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 10. 2017 | 18:00

Nýju stúlkurnar á LPGA: Britney Yada (20/54)

Þann 30. nóvember – 4. desember 2016 fór fram 3. stigs mót LPGA, lokaúrtökumót um hverjar 20 myndu hljóta fullan keppnisrétt á LPGA keppnistímabilið 2016-2017 og hvaða keppendur hlytu takmarkaðan keppnisrétt þ.e. þær sem voru í sætum 21-45 og þær sem jafnar voru í 45. sætinu eða T-45.

155 þátttakendur voru að þessu sinni.

Í dag verður fram haldið við að kynna þær sem voru jafnar í 35. sæti en það eru: Britney Yada; Jessy Tang; Katelyn Dambaugh. Prima Thammaraks og Min-G Kim.

Þær léku allar á samtals 1 yfir pari, 361 höggi.

Þær hafa nú allar verið kynntar nema Britney Yada, sem kynnt verður í kvöld.

Britney Yada er fædd 1. október 1991, alveg eins og Þórdís Geirs og er því 25 ára.  Britney Yada er dóttir Harry og Betty Yada.og á einn bróður, Wesley.

Yada byrjaði að spila golf 8 ára. Meðal áhugamála hennar er að hlusta á tónlist, horfa á sjónvarp, versla, borða úti og vera með vinum sínum.

Hápunktar ferils Yada sem áhugamanns eru eftirfarandi: 
* Hún varð Big Island Intersholastic Federation Individual Champion – meðan hún var í menntaskóla (2007, 2008, 2009)
* Waiakea High School Girl’s Golf MVP (2007, 2008, 2009)
* Big Sky Conference Individual Champion (2011)

Yada lék með Portland State Vikings í bandaríska háskólagolfinu á árunum 2010-2013, en þá útskrifaðist hún með gráðu í hagfræði.

Árið 2015 spilaði Yada á Symetra Tour, sem er 2. deildin í Bandaríkjunum. Hún tók þátt í 14 mótum og náði niðurskurði í 5 þeirra.

Nú 2016 er Yada komin með takmarkaðan spilarétt á mótaröð þeirra bestu, LPGA.