Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 3. 2018 | 10:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2019: Elizabeth Szokol (7/58)

Hér verða líkt og á undanförnum árum kynntar þær stúlkur sem hlutu kortin sín á LPGA fyrir 2019 keppnistímabilið.

Þetta eru þær sem urðu í 45. sæti eða voru jafnar í 45. sæti á lokaúrtökumóti LPGA og efstu 10 á peningalista 2. deildarinnar þ.e. Symetra Tour.

Byrjað verður að kynna 10 efstu á peningalista Symetra Tour og síðan 45 efstu og þær sem jafnar voru í 45. sætinu á lokaúrtökumóti LPGA. Í ár voru 48 stúlkur sem komust á LPGA gegnum lokaúrtökumótið og þær ásamt þeim 10 sem efstar urðu á peningalista Symetra Tour eða alls 58 stúlkur verða því kynntar hér á næstu mánuðum.

Ólafía Þórunn „okkar“ Kristinsdóttir tók þátt í lokaúrtökumóti LPGA en varð ekki meðal efstu 45 og náði því ekki að endurnýja kortið sitt og fastan keppnisrétt á LPGA næsta keppnistímabil.

Sú sem kynnt verður hér er stúlka sem varð í 4. sæti á peningalista Symetra Tour og er þannig komin með fullan spilarétt á LPGA. Þetta er Elizabeth Szokol, en hún vann sér inn $76,612í verðlaunafé í mótum Symetra Tour. Áður hafa, Linnea Ström (5. sæti), Stephanie Meadow (6. sæti), Kendall Dye (7. sæti), Charlotte Thomas (8. sæti), Isi Gabsa (9. sæti) og Dana Finkelstein (10. sæti) verið kynntar.

Elizabeth Szokol fæddist 16. júní 1994 og er því 24 ára. Hún lék í bandaríska háskólagolfinu með NU og spilaði strax að lokinni útskrift, sl. 2 ár á Symetra Tour.

Keppnistímabilið 2017 var nýliðaár Szokol á Symetra Tour. Hún spilaði í 19 mótum og komst 12 sinnum í gegnum niðurskurð og vann sér inn $45,058. Þr á meðal varð hún sex sinnum meðal efstu 10 og besti árangur hennar var 2. sætið á the Four Winds Invitational.

Á keppnistímabilinu 2018 á Symetra Tour sigraði Szokol á IOA Invitational. Eins varð hún 10 sinnum meðal efstu 20 í mótum Symetra Tour, sem varð til þess að hún hlaut 4. sætið á peningalistanum og vann sér inn spilarétt á LPGA

Um það að hafa unnið sér inn kortið sitt á LPGA sagði Szokol: „Það er mér alls virði í heiminum að hafa hlotið fullan spilarétt á LPGA. Vegna meiðsla byrjaði ég árið án þess að vita hvenær ég gæti hafið keppnistímabilið. Að hafa fengið kortið 9 mánuðum eftir uppskurð er ótrúleg tilfinning. Ég get ekki beðið að halda áfram vegferð minni á LPGA og ég svo þakklát fyrir stuðningskerfi mitt í gegnum allt.“