Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 28. 2018 | 10:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2018: Laetitia Beck (35/49)

Það voru 49 stúlkur sem hlutu spilarétt á LPGA mótaröðina 2018 í gegnum lokaúrtökumót LPGA sem fram fór á LPGA International vellinum í Flórída dagana 28. nóvember – 3. desember s.l.

Það voru 29 sem hlutu takmarkaðan spilarétt og 20 efstu stúlkurnar sem hlutu kortið sitt á LPGA þ.e. fullan þátttökurétt í öllum mótum LPGA 2018.

Venja hefir verið undanfarin ár að kynna „nýju“ stúlkurnar á LPGA og líkt og áður verður byrjað að kynna þær sem rétt sluppu inn á mótaröðina og hlutu takmarkaðan spilarétt endað á þeirri sem sigraði í lokaúrtökumótinu, en það var japanska stúlkan Nasa Hataoka.

Nú verður tekið til við að kynna þær 20 stúlkur sem hlutu fullan spilarétt og kortið sitt á LPGA. Búið er að kynna Maríu Torres, sem varð svo sannarlega að berjast fyrir veru sinni á LPGA og hafði betur í bráðabana gegn tveimur öðrum og var ein í 20. sæti. Eins er búið að kynna þær 4, sem deildu 16. sætinu: Briönnu Do, Celine Herbin, Dani Holmqvist og Jessy Tang.

Í dag verður tekið til við að kynna þær 3 sem deildu 13. sætinu þ.e.: Laetitiu Beck frá Ísrael, Cindy Lacrosse frá Bandaríkjunum og Gemmu Dryburgh frá Skotlandi.

Í dag verður Laetitia Beck kynnt.

Laetitia Beck hebreska: (לטיסיה בק) fæddist 5. febrúar 1992 í Antwerpen í Hollandi og er því 25 ára.

Hún er fyrsti ísraelski kylfingurinn til þess að keppa á LPGA. Í Ísrael býr hún í Caesarea.

Hún tók þátt í fyrsta móti sínu sem atvinnumaður á Opna breska kvenrisamótinu 2014, en það ár gerðist hún atvinnumaður í golfi.

Beck hefir sigrað The Israeli Open Golf Championship 5 sinnum, í fyrsta sinn þegar hún var 12 ára.

Hún vann einnig gullmedalíur í golfi 2009 og 2013 í Maccabiah Games.

Beck lék í bandaríska háskólagolfinu með liði Duke University á árunum 2010–14, þar sem hún var í kvennagolfliði háskólans Blue Devils.

Árið 2011 var hún kjörin Atlantic Coast Conference nýliði ársins, árin 2013 og 2014 svar hún All-American, og á háskólaárum sínum var hún með meðahöggafjölda á hring upp á 73.58 (sem er 10. besti árangur í sögu skólans).

Beck sú fyrsta frá Ísarel til þess að keppa í móti á LPGA og í desember 2014 varð hún, eins og áður segir, sú fyrsta frá Ísrael til þess að komast á LPGA.

Hún hefir keppt á lokaúrtökumótum LPGA 2015-2017 og haldið sér þannig á LPGA og er keppnistímabilið 2018 með kortið sitt og fullan spilarétt!