Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 8. 2018 | 10:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2018: Robynn Ree (44/49)

Það voru 49 stúlkur sem hlutu spilarétt á LPGA mótaröðina 2018 í gegnum lokaúrtökumót LPGA sem fram fór á LPGA International vellinum í Flórída dagana 28. nóvember – 3. desember s.l.

Það voru 29 sem hlutu takmarkaðan spilarétt og 20 efstu stúlkurnar sem hlutu kortið sitt á LPGA þ.e. fullan þátttökurétt í öllum mótum LPGA 2018.

Venja hefir verið undanfarin ár að kynna „nýju“ stúlkurnar á LPGA og líkt og áður verður byrjað að kynna þær sem rétt sluppu inn á mótaröðina og hlutu takmarkaðan spilarétt endað á þeirri sem sigraði í lokaúrtökumótinu, en það var japanska stúlkan Nasa Hataoka.

Nú verður tekið til við að kynna þær 20 stúlkur sem hlutu fullan spilarétt og kortið sitt á LPGA. Búið er að kynna Maríu Torres, sem varð svo sannarlega að berjast fyrir veru sinni á LPGA og hafði betur í bráðabana gegn tveimur öðrum og var ein í 20. sæti. Eins er búið að kynna þær 4, sem deildu 16. sætinu: Briönnu Do, Celine Herbin, Dani Holmqvist og Jessy Tang; þær sem deildu 13. sætinu: Laetitiu Beck frá Ísrael, Cindy Lacrosse frá Bandaríkjunum og Gemmu Dryburgh frá Skotlandi og eins þær sem deildu 10. sætinu, þær Caroline Inglis, Kassidy Teare og Marissu Steen frá Bandaríkjunum. Síðan hafa verið kynntar þær sem deildu 7. sætinu; þær Georgia Hall frá Englandi og  Lauren Coughlin og Amelia Lewis frá Bandaríkjunum.

Nú verða næst kynntar þær tvær sem deildu 5. sætinu: Robynn Ree frá Bandaríkjunum og Luna Sobron Galmes, en þær léku báðar á samtals 7 undir pari, 353 höggum. Byrjað verður að kynna Robin í dag.

Robynn Ree er 20 ára frá Redondo Beach í Kaliforníu.

Áður en hún hlaut kortið sitt á LPGA var hún í 30. sæti á heimslista áhugamanna.

Hún var útnefnd í  WGCA All American Second Team sem busi í USC in 2015-16, og ávann sér Honorable Mention recognition árið 2016-17.

Þrátt fyrir ungan aldur spilaði Ree í Opna bandaríska kvenrisamótinu aðeins 18 ára, þ.e. 2016.

Ree leggur stund á fasteignaþróun (ens. real estate developement) í USC og þrátt fyrir að hún sé komin á LPGA ætlar hún sér að halda áfram að sækja tíma og klára nám sitt.

Þegar ljóst var að Ree hefði hlotið kortið sitt og full spilaréttindi á LPGA sagði hún:

Þetta hefir verið langt ferli og ég er virkilega ángæð að hafa náð í gegn í fyrstu tilraun minni. Vonandi á ég gott ár (2018).“