Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 14. 2018 | 09:45

Nýju stúlkurnar á LPGA 2018: Paula Reto (47/49)

Það voru 49 stúlkur sem hlutu spilarétt á LPGA mótaröðina 2018 í gegnum lokaúrtökumót LPGA sem fram fór á LPGA International vellinum í Flórída dagana 28. nóvember – 3. desember s.l.

Það voru 29 sem hlutu takmarkaðan spilarétt og 20 efstu stúlkurnar sem hlutu kortið sitt á LPGA þ.e. fullan þátttökurétt í öllum mótum LPGA 2018.

Venja hefir verið undanfarin ár að kynna „nýju“ stúlkurnar á LPGA og líkt og áður verður byrjað að kynna þær sem rétt sluppu inn á mótaröðina og hlutu takmarkaðan spilarétt endað á þeirri sem sigraði í lokaúrtökumótinu, en það var japanska stúlkan Nasa Hataoka.

Nú verður tekið til við að kynna þær 20 stúlkur sem hlutu fullan spilarétt og kortið sitt á LPGA. Búið er að kynna Maríu Torres, sem varð svo sannarlega að berjast fyrir veru sinni á LPGA og hafði betur í bráðabana gegn tveimur öðrum og var ein í 20. sæti. Eins er búið að kynna þær 4, sem deildu 16. sætinu: Briönnu Do, Celine Herbin, Dani Holmqvist og Jessy Tang; þær sem deildu 13. sætinu: Laetitiu Beck frá Ísrael, Cindy Lacrosse frá Bandaríkjunum og Gemmu Dryburgh frá Skotlandi og eins þær sem deildu 10. sætinu, þær Caroline Inglis, Kassidy Teare og Marissu Steen frá Bandaríkjunum. Síðan hafa verið kynntar þær sem deildu 7. sætinu; þær Georgia Hall frá Englandi og Lauren Coughlin og Amelia Lewis frá Bandaríkjunum og þær tvær sem deildu 5. sætinu: Robynn Ree frá Bandaríkjunum og Luna Sobron Galmes, frá Spáni. Eins hefir sú í 4. sætinu, Rebecca Artis frá Ástralíu verið kynnt, en hún lék á samtals 8 undir pari, 352 höggum.

Nú á bara eftir að kynna Paulu Reto frá S-Afríku, sem varð í 3. sæti, en hún lék á samtals 9 undir pari, 351 höggi; í 2. Tiffany Chan, frá Hong Kong, en hún lék á samtals 11 undir pari, 349 höggum og síðan sigurvegarann Nasa Hataoka frá Japan, en hún lék á samtals 12 undir pari, 348 höggum.

Í dag verður Paula kynnt og síðan endar greinarröðin með kynningu á sigurvegaranum Nösu Hataoka.

Paula Reto fæddist 3. maí 1990 í Höfðaborg í S-Afríku, dóttir Belindu og Tony Reto og hún á 3 systkini.

Paula er þvi 27 ára og eins er hún 1,65 m á hæð og 62 kg.

Paula lék í bandaríska háskólagolfinu með liði Purdue.

Paula Reto hefir spilað á LPGA frá því hún útskrifaðist úr háskóla 2013, en þá fór hún í Q-school og ávann sér full keppnisréttindi á LPGA  2014 keppnistímablið.